Á eigin vegum

Leiðsögn fyrir leiðbeinendur eldri hópa á eigin vegum

Leiðsögnin er ætluð leiðbeinendum efri bekkja grunnskóla og framhaldsskóla

og öðrum hópum eða einstaklingum sem vilja fara um Þjóðminjasafnið á eigin vegum.

Hún hefst á stuttri kynningu á safninu og uppbyggingu grunnsýningar og nær yfir hana alla, tvær hæðir. Stoppað á 24 stöðum þar sem gripum er lýst og við hljóðstöð til að hlusta á raddir fyrri alda. Leiðsögnina er hægt að prenta út (PDF - 194Kb), nálgast í afgreiðslu safnsins eða lesa að neðan.

Leiðbeinendur athugið: Leiðsögnina má nota á þann hátt sem þeim best þykir, hægt er að stoppa við alla gripi eða velja úr. Ekki má gleyma að í grunnsýningunni sjálfri er að finna margskonar fræðslu, t.d. raddir fyrri alda, margmiðlunarstöðvar og myndamöppur. Munið að bóka þarf tíma fyrir hópa á kennsla@thjodminjasafn.is eða í síma 5302200.

TILBÚIN LEIÐSÖGN FYRIR ELDRI HÓPA

Kynning á safni og sýningum

Þjóðminjasafnið
Þjóðminjasafnið var stofnað árið 1863 og er því meira en 140 ára og er ein af elstu stofnunum landsins. Fyrstu áratugina var safnið húsnæðislaust en var hýst á ýmsum háaloftum bæjarins. Á lýðveldisárinu 1944 ákvað ríkisstjórnin að byggja hús yfir safnið og var það kallað „morgungjöf“ til þjóðarinnar. Nýtt safnhús var opnað árið 1950 við Suðurgötu. Árið 1998 var húsinu lokað vegna endurbóta og opnað í núverandi mynd 1. september 2004 eftir gagngerar endurbætur.

Grunnsýningin
Grunnhugmynd sýningarinnar er: Þjóð verður til. Þetta er sögusýning og er Íslandssagan sögð í tímaröð frá landnámi til loka 20. aldar. Uppbygging sýningarinnar er á þann veg að henni er skipt í fimm tvöhundruð ára tímabil en síðustu tvö tímabilin ná yfir eina öld hvort. Fyrir hvert 200 ára tímabil er ákveðinn lykilgripur sem sjá má í svörtum háum skápum. Sýningin er á tveimur hæðum. Á neðri hæð er fjallað um tímabilið 800 - 1600 og á efri hæðinni tímabilið 1600 - 2000.

Aðrar sýningar og fleira í boði
Auk grunnsýningarinnar er boðið upp á nokkrar mismunandi sérsýningar á ári, í Myndasal á fyrstu hæð og í Bogasal og rannsóknarrými á annarri hæð (upplýsingar má finna á vef og í anddyri). Þar er líka lesstofa þar sem skoða má margmiðlun og lesa bækur. Að lokum má nefna tvö herbergi sem við köllum Skemmtimenntun, einnig staðsett á annarri hæðinni, þar sem börn og fullorðnir geta snert á hlutum og brugðið á leik.


Leiðsögn

2. hæð

Upphaf Íslandsbyggðar: 800-1000

1. Bátslínur í gólfi
Hér í gólfinu má sjá útlínur skips sem samsvara algengri stærð þeirra skipa sem landnámsmenn sigldu á til landsins. Þeir tóku með sér allar nauðsynjar og í skápunum innan bátslínunnar og þar í kring má sjá gripi á því tagi sem varðveist hafa frá þessum tíma. Þetta eru gripir sem hafa fundist í jörðu, svo sem skart, vopn og gripir til daglegra nota. Hér má sjá áhöld til járnvinnslu, fiskvinnslu, kornmölunar en við lok miðalda lagðist bæði járnvinnsla og kornyrkja af á Íslandi.

2. Þórslíkneskið
Lykilgripur tímabilsins er Þórslíkneskið. Líkneskið er mannslíkan úr bronsi sem á sér enga þekkta hliðstæðu. Líkneskið hefur löngum verið talið sýna Þór, einn hinna fornu guða norrænna manna, sem mjög var dýrkaður á landnámsöld. Vera má að líkneskið sé hnefi úr hinu forna hnefatafli. Bronskarlinn heldur báðum höndum um hlut sem talinn hefur verið Þórshamar, en líkist mjög kristnum krossi og hafa sumir leitt líkum að því að líkneskið eigi að sýna Krist konung á veldisstóli. Líkneskið er talið vera frá 11. öld, þegar kristni hafði þegar verið lögtekin á Íslandi. Mikið hefur verið gert af eftirmyndum þess en aðeins eitt er upprunanlegt og það er þetta hér.

3. Baldursheimskuml
Hnefataflið og beinkarlinn sem hér sjást koma úr kumli sem fannst í Baldursheimi í Mývatnssveit á árunum 1860-61. Sá fundur varð til þess að Þjóðminjasafnið var stofnað árið 1863. Beinkarlinn á sér engan líka en minnir kannski helst á Þórslíkneskið. Slíkar mannsmyndir frá þessum tíma eru mjög sjaldgæfar en þessi gæti tilheyrt hnefataflinu sem hér má sjá. Hnefataflið og beinkarlinn eru fyrstu gripirnir í munaskrá safnsins, númer 1 og 2.

4. Kuml í gólfi
Hér má sjá þrjú af þeim u.þ.b. 320 kumlum sem hafa fundist á Íslandi. Kuml eru grafir heiðinna manna. Í þau voru lagðir ýmsir hlutir og dýr, svokallað haugfé. Þetta helgast af þeirri trú manna að næsta líf væri alveg eins og þetta og fólk þyrfti á sömu gripum að halda í annarri tilveru. Hestar og hundar voru oft slegnir af og grafnir með eigendum sínum. Fremst liggur maður ásamt hesti sínum og ýmsum gripum, mest vopnum (frá Sílastöðum í Eyjafirði) og þar fyrir aftan eru kuml konu og barns (frá Hafurbjarna¬stöðum á Reykjanesi). Ef kumlin eru borin saman má sjá að ólíkur jarðvegur varðveitir gripi og bein misvel. Hér eru grafirnar sýndar eins og þær voru þegar þær fundust. Í möppu sem er að finna milli sæta á bekknum má sjá kuml eins og það gæti hafa litið út á greftrunardaginn.
Kristið goðaveldi: 1000-1200

5. Kirkjulíkan
Kirkjulíkanið er tilgáta byggð á rannsóknum á grunni Skálholtskirkju og lýsingum á uppbyggingu beggja dómkirknanna á Íslandi, í Skálholti og á Hólum. Þær voru reistar eftir aldamótin 1000 þegar Íslendingar tóku kristni. Þessar kirkjur voru mjög stórar og er talið að þær hafi verið með stærstu timburkirkjum í Evrópu á þessum tíma.

6. Flatatungufjalir og Dómsdagsfjalir
Lítið hefur varðveist af kirkjubyggingum frá miðöldum, en þær fjalir sem hér má sjá eru nokkrar af þeim fjölum úr kirkjum sem til eru. Bæði Dómsdagsfjalirnar á stóra veggnum og Flatatungufjalirnar á minni veggnum eru taldar vera úr Hóladómkirkju. Fjalirnar varðveittust vegna þess að þær voru notaðar aftur og aftur, síðast sem árefti (klæðning) í útihús. Útskurðurinn á Flatatungufjölunum er talinn vera elsti útskurður sem varðveist hefur á Íslandi. Á Dómsdagsfjölunum segir frá efsta degi þegar allir menn eru dæmdir til himnaríkis eða helvítis. Þar sést m.a. höfuð satans, skrímsli að skila manni sem það hafði gleypt, dans hinna dauðadæmdu o.fl. Myndir sem þessar voru algengar í erlendum kirkjum og er teiknaða myndin til vinstri tilgáta um það hvernig dómsdagsmyndin gæti hafa litið út.

7. Ufsakristur
Lykilgripur tímabilsins er hluti af róðukrossi sem hékk í Ufsakirkju í Svarfaðardal. Hann er talinn íslenskur og frá því um 1200. Myndin er skorin úr birki í rómönskum stíl. Hún hefur verið máluð og sjást enn leifar af upphaflegri málningu. Kristur er sýndur alskeggjaður og sítt hárið fellur niður um herðarnar. Hann hefur um sig lendaklæði eins og venja er á slíkum myndum og stendur teinréttur á fótstalli með upprétt höfuð, opin augu og arma teygða beint út frá öxlum, allt einkenni rómanska stílsins. Rómanskir krossar tíðkuðust fram um 1200. Á þeim er Kristur valdsmannslegur og oft krýndur kórónu konungs og er hann mjög ólíkur gotnesku krossunum sem komu á eftir þar sem hann ber þyrni¬¬¬kórónu píslarvottsins, höfuðið hneigist niður og líkaminn hangir í dauðastellingum.
 

Í norska konungsríkinu: 1200-1400

8. Miðaldakirkjan    
Gripirnir hér eru kirkjugripir sem notaðir voru í kaþólskum sið. Með kaþólskunni fylgdi samband við Páfann í Róm og Evrópu alla. Evrópskra áhrifa sér stað í íslenska handverkinu hér, þar sem heimamenn nýttu sér stíl og handbragð erlendis frá og löguðu að þeim aðstæðum og efnivið sem þeir höfðu yfir að ráða.

Kristsmynd úr Húsavíkurkirkju (a) og útsaumuðu klæðin (b) eru íslensk svo og Hólaklæðið, (c) altarisklæði úr dómkirkjunni á Hólum. Hólaklæðið er talið vera frá 1525-1550 og geta verið saumað af Helgu Sigurðardóttur, barnsmóður og fylgikonu Jóns biskups Arasonar. Það er  saumað með sérstakri útsaumsgerð sem kölluð er refilssaumur. Á klæðinu sjást biskuparnir þrír sem nefndir voru helgir á Íslandi, Guðmundur góði Arason á Hólum, Jón Ögmundsson á Hólum og Þorlákur helgi Þórhallsson í Skálholti. Þeir eru sýndir í fullum skrúða og eru nöfnin yfir höfðum þeirra. Margt af því sem hér er sýnt er erlent enda alþjóðlegur markaður fyrir kirkjulist á þessum tíma.
Frekari upplýsingar um gripina er að finna í bæklingi hægra megin við innganginn í kirkjuna.


9. Valþjófsstaðahurð    
Valþjófsstaðahurðin er talin er vera frá því um 1200 og var í notkun í kirkjum á Fljótsdalshéraði á Austurlandi á 13. öld. Hurðin, sem er með miklum útskurði í rómönskum stíl, er skorin út á Íslandi og er einn frægasti forngripur Íslendinga. Margar íslenskar miðaldakirkjur voru skreyttar útskurði en Valþjófsstaðahurðin er eina útskorna hurðin sem varðveist hefur. Í efri hringnum er þekkt miðaldasaga í þremur þáttum. Sagan hefst í neðri hluta hringsins og fylgir sólarganginum. Þar segir frá baráttu riddara við dreka til að bjarga ljóni. Ljónið launar lífgjöfina með því að fylgja riddaranum og liggur að lokum á leiði hans og syrgir vin sinn. Í baksýn er lítil stafkirkja og á gröfinni er rúnaletur: Sjá inn ríkja konung hér grafinn er vá dreka þenna. Á Alþingisárinu 1930 þegar Danir afhentu Íslendingum gripi, sem höfðu áður verið fluttir til  Danmerkur, var hurðin síðasti gripurinn sem skilað var. Þótti Dönum sárt til þess að hugsa hve fáir mundu njóta hennar hér því á þeim tíma var lítið um ferðamenn á landinu.

 

Í Danaveldi: 1400-1600

10. Hökull Jóns Árnasonar    
Hér erum við komin að tímabili siðaskiptanna á 16. öld sem var mikill átakatími í sögu þjóðarinnar. Hökullinn var í eigu síðasta kaþólska biskupsins Jóns Arasonar. Jón var hálshöggvinn ásamt sonum sínum í Skálholti árið 1550. Þar með lauk átökunum og lúthersk trú var tekin upp að vilja Kristjáns þriðja Danakonungs. Þess má geta að það tók einn af forvörðum safnsins heilt ár að gera við hökulinn og koma honum í sýningarhæft ástand.

11. Guðbrandsbiblía
Biblía Guðbrands biskups er lykilgripur tímabilsins; fulltrúi lútherskunnar. Mikið hefur varðveist af gripum frá Guðbrandi og má sjá stóran hluta þeirra hér í kring. Frægust er Guðbrandsbiblían frá árinu 1584, sem var fyrsta biblían sem var þýdd og prentuð á Íslandi. Biblían var prentuð í 500 eintökum og tók prentunin tvö ár. Ein mikilvægustu nýmælin eftir siðbreytinguna voru að nú skyldi boða trúna á móðurmálinu og var þýðing biblíunnar því undirstöðuatriði. Biblían reyndist einnig vera mikilvægt tæki til að viðhalda tungumálinu og ritmenningunni. Málverkin af Guðbrandi eru með þeim fyrstu sem máluð eru af nafngreindum Íslendingi.

12. Grundarstólar
Grundarstólarnir draga nafn sitt af kirkjunni á Grund sem fékk þá að gjöf frá Þórunni dóttur Jóns Arasonar. Talið er að Þórunn hafi látið gera þrjá stóla en aðeins tveir eru varðveittir. Þeir eru fyrstu íslensku listgripirnir sem vitað er með vissu hver gerði því á einum þeirra stendur: „hústrú Þórunn Jónsdóttir á mig, Benedikt Narfa“ ?son gerði? hefur átt að standa. Mikið af íslenskum gripum var í umsjá Dana eins og áður sagði. Þegar þeir skiluðu gripunum á Alþingishátíðinni árið 1930 héldu þeir stærri stólnum eftir og er hann enn í eigu danska Þjóðminjasafnsins. Hér er hann í láni til 5 ára (frá 2004).
3. hæð

3. hæð

Konungseinveldi: 1600-1800

 

13. Drykkjarhorn og hvalbeinsspjöld
Fyrstu nafngreindu listamennirnir eru uppi á þessum tíma. Þar fer fremstur Brynjólfur Jónsson bóndi í Skarði í Landssveit, sem var mikill hagleiksmaður og skar út drykkjarhornið (a) sem er lykilgripur tímabilsins. Myndirnar á horninu sýna atburði úr Gamla og Nýja testamentinu. Efst er brúðkaupið í Kana þar sem Kristur breytti vatni í vín. Á mjórri enda hornsins er maður í gini dreka. Brynjólfur hefur verið hagur myndskeri og ætla má að hann hafi haft nokkra atvinnu af útskurði þar sem mörg verk eru til eftir hann. Þekktustu verk hans eru útskorin hvalbeinsspjöld úr Skarðskirkju (b). Drykkjarhornið er í eigu danska Þjóðminjasafnsins og er í láni til 5 ára eins og Grundarstólarnir.

14. Predikunarstóll
Predikunarstóllinn frá Bæ á Rauðasandi er smíðaður, skorinn út og málaður af Jóni Greipssyni. Hann er úr furu. Stóllinn var smíðaður árið 1617 fyrir brúðkaup Björns Magnússonar sýslumanns og Helgu, dóttur Arngríms Jónssonar lærða. Útskornu myndirnar eru forvitnilegar. Á miðjum stólnum er Kristur á krossinum á Golgata og sitt hvorum megin við hann María guðsmóðir og lærisveinninn Jóhannes sem Jesús elskaði og bað að gæta móður sinnar. Í hinum römmunum fjórum eru guðspjallamennirnir með sín tákn, Matteus með vængjaða manninn, Markús með vængjað ljónið, Lúkas með vængjað nautið og Jóhannes, en tákn hans vantar. Það frumlegasta við myndirnar er að allir eru í dökkum klæðum að hætti 17. aldar manna á Íslandi, ekki hefðbundnum kyrtlum. María og Jóhannes eru klædd eins og íslenskt hefðarfólk í upphafi 17. aldar og því gætu þetta einnig átt að vera myndir af þeim hjónum Helgu og Birni. 

  
15. Gapastokkur
Gapastokkurinn var notaður til að refsa fyrir minni háttar afbrot. Efri festingin var sett utan um háls fangans og sú neðri utan um ökkla hans. Gapastokkurinn var svo staðsettur á fjölförnum stöðum s.s. fyrir framan kirkjur, fanganum til niðurlægingar og öðrum til viðvörunar. Á 17. öld var réttarkerfið mjög strangt og einkenndist af ótta, grimmd og harðneskju. Fyrir minni háttar þjófnaði voru menn brennimerktir á enni og fyrir stærri brot svo sem stórþjófnað eða endurtekin hórdómsbrot voru menn líflátnir. Lýsandi fyrir ástandið eru orð Jóns Hreggviðssonar aðalsöguhetju  Íslandsklukkunnar eftir Halldórs Laxness: „Vont er þeirra ranglæti, verra er þeirra réttlæti“.

16. Galdramaður ? hljóðstöð
(Ath. hér þarf að kalla í starfsmenn safngæslu til að kveikja á hljóðstöð.) Fylgifiskur þess guðsótta og strangleika sem einkenndi þetta tímabil var galdrafárið svokallaða. Menn óttuðust mjög illar vættir, djöfulinn og hans ára alla og reyndu að verjast bæði með guðsorði og galdrastöfum. Ólíkt því sem gerðist í öðrum löndum voru það aðallega karlar sem voru brenndir fyrir galdra á Íslandi, af 25 manns sem brenndir voru var aðeins ein kona.
                   
17. Manntalið 1703 og gripir frá þeim tíma
Manntal var tekið á Íslandi árið 1703. Nú fer að bera meira á gripum sem tengjast daglegu lífi fólks en einskorðast ekki við trúarlega gripi eins og einkum hafa varðveist frá fyrri tímum. Kvenbúningurinn (a) sem hér er til sýnis er forveri skautbúningsins sem við sjáum hér aðeins seinna. Á þessum tíma bjuggu Íslendingar yfir góðri kunnáttu í útskurði, bæði í tré og járn, útsaumi og gull- og silfursmíði sem sjá má dæmi um á þessu svæði, sem helgað er lífinu á Íslandi í kringum 1700. Eitt af einkennum íslenska útskurðarins er höfðaletrið sem sjá má á gripunum hér, t.d. trafakeflum (b). Útsaumurinn hefur líka íslensk einkenni, hvað varðar munstur, efni, litaval og notkun saumgerða sem sjást á  rúmábreiðunni (c) lengst til vinstri, með hringreitum og saumuð með gamla íslenska krosssauminn. Á  ábreiðuna eru letraðar þrjár línur með gotnesku letri í dróttkvæðum hætti: Hér mun Himna stýrir, hvílu með blessun skýla, engill Guðs að gangi, gl? Myndirnar sýna fæðingu Jesú, skírn hans í ánni Jórdan, krossfestingu hans og greftrun. Einnig sést lífsins tré og efri hlutinn af örk Nóa með dýrum og fuglum.

 

Þjóðin og þéttbýlið: 19. öldin

18. Skautbúningur og leiktjöld     
Lykilgripur 19. aldar er nýr hátíðarbúningur kvenna, skautbúningur sem Sigurður Guðmundsson málari átti hugmynd að. Sigurður fékk m.a. innblástur frá gamla faldbúningnum, íslenskri náttúru, gróðrinum, jöklunum og norðurljósunum. Útsaumsmynstrin eiga að tákna jarðargróðurinn, faldurinn jökulinn og spöngin norðurljósin. Auk þess að vera hátíðarklæðnaður þá er skautbúningurinn líka þjóðartákn sem fjallkonan skrýðist. Þetta er elsti varðveitti skautbúningurinn sem vitað er um. Sigurður málari var mikill hugsjónamaður og var frumkvöðull í ýmsum menningarmálum. Leikhústjöldin sem hanga úr loftinu skammt frá eru einnig eftir hann, gerð fyrir uppsetningu á leikritinu Útilegumennirnir (Skugga-Sveinn) eftir Matthías Jochumson. Í þeim kemur fram sú þjóðernisrómantíska náttúrusýn sem einkenndi tímabilið; fjöll og öræfi eru ekki lengur bara ófærur og heimkynni ógæfumanna heldur er stórbrotin náttúran talin falleg. Sigurður er sérstaklega mikilvægur í sögu þessa safns, því hann kom fyrstur manna með hugmynd að stofnun forngripasafns sem síðar varð Þjóðminjasafn Íslands. Nánar er fjallað um Sigurð málara aðeins innar í salnum. 

19. Baðstofan.
Baðstofan gegndi stóru hlutverki í bændasamfélaginu. Þar vann fólk, borðaði og svaf. Gripirnir inni í baðstofunni og allt í kringum hana og á stóra glerskápnum við hlið baðstofunnar eru hlutir til daglegra nota. Um 1900 voru 70% allra bæja í sveitum torfbæir. Þessi baðstofa er frá Skörðum í Dalasýslu og var notuð allt til ársins 1956.

20. Árabáturinn Ingjaldur.
Á 19. öld jukust fiskveiðar mjög mikið. Ástæðurnar voru þær að fleiri árabátar voru smíðaðir og þilskipaútgerð hófst. Báturinn Ingjaldur er dæmi um þá tegund fiskibáta sem notaður var til fiskveiða allt til 19. aldar þegar vélbátar tóku við. Ingjaldur á sér nokkuð sérstaka sögu sem tengist landhelgisdeilum við Breta. Árið 1899 var breskur togari á ólöglegum veiðum í Dýrafirði. Sýslumaðurinn á Ísafirði, Hannes Hafstein, ætlaði að stöðva veiðarnar og fékk þennan bát, Ingjald, til að sigla út í togarann svo hann gæti rætt við skipstjórann. Það fór ekki betur en svo að togaramenn söktu árabátnum og dóu þrír skipverjar en Hannes Hafstein og þrír aðrir björguðust. Báturinn var dreginn í land en togarinn slapp. Skipstjórinn náðist mánuði síðar við Jótland og var dæmdur í tveggja ára fangelsi. Eftir að hafa afplánað dóminn snéri hann aftur á Íslandsmið og fórst þar. Hannes Hafstein er betur þekktur fyrir að hafa gengt starfi ráðherra Íslands við upphaf heimastjórnar 1904. Auk þess var hann þekkt skáld og orti meðal annars kvæðið Sprettur sem byrjar svona: „Ég berst á fáki fráum fram um veg“.

21. Fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna.
Hér í miðjuskápnum má líta fyrsta fyrirlesturinn sem fluttur var af konu á Íslandi, „Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Bríet flutti fyrirlesturinn í Góðtemplarahúsinu árið 1888, aðgangseyrir var 50 aurar. Í upphafi fyrirlestursins talar hún um mismunandi stöðu kynjanna gagnvart almenningsálitinu því karlmaðurinn geti boðið því birginn á meðan konan neyðist til að gefa sig undir það. En hún lætur ekki þar við sitja heldur segir:

„Háttvirtu áheyrendur! [...] [Þ]að er til tvenns konar almennt álit: Það álit sem byggist á heimsku, hleypidómum, einstrengingsskap, vanafestu, hlutdrægni, öfund og jafnvel illgirni, - en undir það álit gef ég mig ekki heldur geng ég fram hjá því ? og það álit sem er byggt á skynsemi, drengskap, óhlutdrægni og mannúð og þeim dómi skal ég fúslega hlíta, hvernig sem hann fellur.“

Bríet var baráttukona fyrir menntun og réttindum kvenna, m.a. kosningarétti. Hún stofnaði Hið íslenska Kvenfélag árið 1894, stofnaði Kvennablaðið ári síðar og stofnaði svo Kvenréttindafélag Íslands árið 1907. Bríet sat meðal fyrstu kvenna í bæjarstjórn Reykjavíkur í samtals tíu ár milli áranna 1908 ? 1920.   


Leiðin til samtímans: 20. öldin

22. Hvítbláinn
Lykilgripur 20. aldar er hvítbláinn sem svo er kallaður og margir vildu gera að þjóðfána Íslands. Þar táknar blár flötur himin, haf og fjallabláma en hvítur kross jöklana.
Á fyrstu árum 20. aldar var oft flaggað með þessum fána án þess að yfirvöld fyndu að því. En samkvæmt lögum var aðeins leyfilegt að flagga danska þjóðfánanum á skipum sem tilheyrðu danska ríkinu. Fánanum sem hér má sjá var flaggað á skemmtibát við Reykjavíkurhöfn 12. júní 1913. Skipherra á dönsku herskipi gerði hann upptækan og leiddi það af sér fjölmennar mótmælaaðgerðir. Árið 1915 fengu Íslendingar eigin fána en önnur tillaga var valin. Þar var rauður kross sem átti að tákna eldinn lagður inn í hvíta krossinn.
    
23. Færiband.
Erill 20. aldarinnar er tákngerður með flughöfn. Það má bera þennan hluta sýningarinnar saman við fyrsta hlutann þar sem bátslínur í gólfinu sýna farkost manna til landsins við upphaf byggðar. Samfélagið hér einkennist af áður óþekktum hraða og magni, upplýsingar flæða úr öllum áttum og lífsgæðin eru mikil. Hlutirnir á færibandinu varpa ljósi á þennan tíðaranda.

24. Skjáir á vegg.
Tuttugasta öldin er einnig öld ljósmyndarinnar. Hér eru fjórar myndasýningar. Á  stærsta skjánum er Aldarspegill, sem sýnir 650 ljósmyndir og koma þær flestar úr myndasafni Þjóðminjasafnsins. Síðan eru þrjár myndasýningar þar sem hver um sig hefur sitt þema. Þau eru samgöngur, portrettmyndir og bernskan.

Póstlisti Þjóðminjasafnsins

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.