Framhaldsskólar

Fræðsla fyrir framhaldsskóla

Safnfræðsla fyrir framhaldsskólahópa í Þjóðminjasafninu:

Þjóð í mótun. Grunnsýning, tímabilið 800-1600

 Farið er í grunnsýningu safnsins á 2. hæð, þar sem fjallað er um sögu Íslandsbyggðar frá landnámi og fram yfir siðaskipti. 

Leiðin til samtímans. Grunnsýning, tímabilið 1600-2000

 Farið er í grunnsýningu safnsins á 3. hæð og fjallað um sögu Íslandsbyggðar frá siðaskiptum og fram til nútímans. 

Lífgað upp á hvunndaginn: Listir og handverk fyrri alda

Gengið er um grunnsýningu safnsins og sérstök áhersla lögð á handverk og listir fyrri alda. Skoðaðir eru kirkjugripir, nytjagripir og listgripir á sýningunni og þeir settir í samhengi með tilliti til samfélagsgerðar hverju sinni. 

Stakkur eftir vexti: Tíska og textílar

Gengið er um grunnsýningu safnsins og sérstök áhersla lögð á textíla, fatnað og tísku fyrri alda. Skoðaðir eru skartgripir, myndir og minningartöflur sem gefa innsýn í efnið. Einnig er farið yfir efnisnotkun og áhrif mismunandi stílbrigða í Evrópu og hvernig þau endurspeglast í tískunni hverju sinni.  Þróun íslenskra kvenbúninga verður sérstaklega höfð að leiðarljósi sé þess óskað.

Frá rúnaristum til ritvéla: Íslensk bókmenntasaga

Gengið er um grunnsýningu safnsins með áherslu á gripi sem tengjast íslenskri bókmenntasögu frá upphafi Íslandsbyggðar til nútímans. 

Hlekkir fortíðar. Glæpur og refsing í feðraveldi

Sagt frá og sýndir gripir safnsins sem með einhverjum hætti tengjast glæpum, refsingum og kynhlutverkum í gegnum Íslandssöguna. 

Safnfræðsla fyrir framhaldsskóla í Safnahúsinu

Eitt af meginmarkmiðum sýningarinnar Sjónarhorn í Safnahúsinu er að hún nýtist nemendum til að upplifa og rýna í íslenskan myndheim. Upplagt er fyrir hópa í ýmsum greinum sem til dæmis tengjast sögu, listfræði og hönnun að heimsækja sýninguna Sjónarhorn.

Í Safnahúsinu starfar þjálfað starfsfólk sem er tilbúið að aðstoða kennara og nemendur á ferðalagi sínu um sýninguna. Nemendur eru þó ávallt á ábyrgð kennara meðan á heimsókn stendur. 

Einnig er hægt að tengja heimsókn í Þjóðminjasafnið og heimsókn í Safnahúsið saman og dýpka þannig skilning og upplifun nemenda á íslenskri menningarsögu.

Upplýsingar um fræðsluverkefni og bókun heimsókna má finna á heimasíðu Safnahússins.