Framhaldsskólar

Fræðsla fyrir framhaldsskóla

Safnfræðsla fyrir framhaldsskólahópa í Þjóðminjasafninu felur í sér leiðsagnir um grunnsýningu safnsins út frá ólíkum sjónarhornum sem henta mismunandi fögum eða áföngum.

Einnig geta kennarar á framhaldsskólastigi komið með nemendur á eigin vegum á sýningar Þjóðminjasafnsins á Suðurgötu og í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Sjá nánari upplýsingar um fræðsluefni fyrir framhaldsskóla í Safnahúsinu við Hverfisgötu hér: http://www.safnahusid.is/fraedsla/#fill-skolaheimsoknir. Kennarar mega einnig senda nemendur á sýningar á eigin vegum til þess að vinna fyrir fram skilgreind verkefni sem þeir standa skil á gagnvart kennara.

Leiðsagnir í Þjóðminjasafni eru sniðnar að óskum kennara og hafa eftirtaldar nálganir á efni sýninganna mótast undanfarin ár:

Þjóð í mótun. Grunnsýning, tímabilið 800-1600

Farið er yfir fyrri helming grunnsýningar safnsins, þar sem fjallað er um sögu Íslandsbyggðar frá landnámi og fram yfir siðaskipti. 

Leiðin til samtímans. Grunnsýning, tímabilið 1600-2000

Seinni hluti grunnsýningar safnsins er kannaður, þar sem fjallað er um sögu Íslandsbyggðar frá siðaskiptum til nútíman.

Lífgað upp á hvunndaginn: Listir og handverk fyrri alda

Grunnsýning safnsins er rannsökuð með sérstakri áherslu á handverk og listir. Skoðaðir eru kirkjugripir, nytjagripir og listgripir á sýningunni og þeir settir í samhengi með tilliti til samfélagsgerðar hverju sinni. 

Stakkur eftir vexti: Tíska og textílar

Víða á grunnsýningu safnsins má sjá muni og myndir sem varpa ljósi á fatnað og tísku fyrri alda. Skoðaðar eru textílleifar, skartgripir, myndir og minningartöflur sem gefa innsýn í efni og útlit fatnaðar fyrri alda. Tískustraumar frá Evrópu höfðu áhrif á fatagerð hér á landi þó sum stílbrigði megi telja séríslensk. Þróun íslenskra kvenbúninga verður sérstaklega höfð að leiðarljósi sé þess óskað.

Frá rúnaristum til ritvéla: Íslensk bókmenntasaga

Gengið er um grunnsýningu safnsins með áherslu á gripi sem tengjast íslenskri bókmenntasögu frá upphafi Íslandsbyggðar til nútímans.

Hlekkir fortíðar. Glæpur og refsing í feðraveldi

Sagt er frá gripum safnsins sem með einhverjum hætti tengjast glæpum, refsingum og kynhlutverkum í gegnum Íslandssöguna.

Almenn leiðsögn um grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til, er ávallt í boði fyrir alla aldurshópa. Vinsamlegast sendið beiðni um bókun á netfangið kennsla@thjodminjasafn.is eða hafið samband í síma 5302255 eða 5302254.

Leiðsagnir um sérsýningar Þjóðminjasafns Íslands

Guðmundur Ingólfsson. Á eigin vegum. Ljósmyndir 1967-2017. 

Guðmundur Ingólfsson er meðal fremstu ljósmyndara sinnar kynslóðar á Íslandi. Hann hefur tekið myndir á stórar filmur, landslag og byggð. Sýningin er yfirgripsmikil og hægt er að skoða hana með mismunandi útgangspunkta í huga, svo sem út frá heimildagildi ljósmyndanna t.d. hvað varðar breytingar í borgarlandslaginu, listrænu gildi þeirra, persónulegu gildi, tilgangi þeirra og þeim vísunum sem þær bera. Sjá nánar hér.

Safnfræðsla fyrir framhaldsskóla í Safnahúsinu

Eitt af meginmarkmiðum grunnsýningar Safnahússins við Hverfisgötu, Sjónarhorna, er að hún nýtist nemendum til að upplifa og rýna í íslenskan myndheim. Sýningin nýtist einkum í greinum sem tengjast sögu, myndlist, listfræði og hönnun. Upplýsingar um fræðsluverkefni og bókun heimsókna má finna á heimasíðu Safnahússins: www.safnahusid.is. Hægt er að tengja saman heimsókn í Þjóðminjasafnið á Suðurgötu og í Safnahúsið við Hverfisgötu og dýpka þannig skilning og auðga reynslu nemenda af íslenskri menningarsögu. 

Upplýsingar um fræðsluverkefni og bókun heimsókna má finna á heimasíðu Safnahússins.