Grunnskólar

5.- 10.bekkur í Þjóðminjasafni

Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi

Í nóvember 2016 var opnuð sýning í Bogasal Þjóðminjasafnsins sem nefnist Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi. Sýningin byggir á rannsóknum mannfræðinganna Kristínar Loftsdóttur og Unnar Dísar Skaptadóttur og  nemenda þeirra við Háskóla Íslands. Á sýningunni er dregið fram að saga og samtími Íslands hefur einkennst af þverþjóðlegum tengslum rétt eins og annarra landa í heiminum. Ísland hefur þannig verið vettvangur hreyfanleika fólks og hugmynda í gegnum aldir.

Þetta er mikilvægt að undirstrika á tímum þegar dagleg umræða byggir oft á þeirri hugmynd að fyrr á öldum hafi ólíkir hlutar heimsins verið einangraðir hverjir frá öðrum. Fordómar í íslensku samfélagi eru ekki heldur nýir því að Íslendingar hafa um aldir verið mótaðir af hnattrænum kynþáttahugmyndum. Fjallað er um þessi efni á sýningunni með dæmum um fólksflutninga til og frá Íslandi áður fyrr og í nútímanum. Fordómar eru kynntir út frá umræðum sem spruttu upp í samfélaginu í kjölfar endurútgáfu Negrastrákanna með teikningum Muggs 2007.

Umfjöllun um þverþjóðleika og fjölmenningu er mikil og mikilvæg í samfélaginu í dag. Rauði krossinn hefur til að mynda hrundið af stað herferðinni Vertu næs sem meðal annars felur í sér fyrirlestra fyrir grunnskóla um innflytjendamál og margir kannast eflaust við. Þjóðminjasafnið er stolt af því að vera í samstarfi við Rauða krossinn um safnfræðslu út frá verkefninu en stutt teiknimynd herferðarinnar um fjölmenningu er sýnd í lok nemendaheimsóknar.

Í Aðalnámsskrá grunnskóla, samfélagsgreinar stendur:

Samfélagsgreinar eru þær greinar sem fjalla um samfélög og menningu á upplýsandi og gagnrýninn hátt. Þær eiga sér grundvöll í þeirri skyldu hvers samfélags að fræða nemendur um gildi eins og jafnrétti, lýðræði, umhyggju og virðingu og þýðingu þessara gilda fyrir farsælt líf. Slíka menntun öðlast ungt fólk vissulega einnig annars staðar en í skólakerfinu, enda eru fyrirmyndir barna margar.

Safnfræðsla Þjóðminjasafnsins býður upp á leiðsögn skólahópa og fræðslu um umfjöllunarefni sýningarinnar Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi. Miðað er við að heimsókn taki ekki lengri tíma en klukkustund. Gengið verður um sýninguna auk umræðutíma þar sem nemendum gefst færi á að spegla sjálfa sig og umhverfi sitt með þverþjóðlegum hætti í skemmtilegum leik. Stuðst er við Vertu næs herferðina sem Rauði krossinn hefur verið með í um tvö ár.

Bókið tíma fyrir skólahóp með því að senda tölvupóst á kennsla@thjodminjasafn.is með upplýsingum um aldur og fjölda nemenda og óskum um tímasetningu. Tekið er á móti hópum á virkum dögum, nema mánudögum, frá kl. 9 til 16. Einnig er hægt að hringja í safnkennarana Önnu Leif og Jóhönnu í síma 530 2254 og 5302255 .