Leikskólar

Dagskrá fyrir leikskóla

Dagskráin er miðuð við næstelsta og elsta stig leikskóla. Mörg barnanna eru líklega að heimsækja Þjóðminjasafnið í fyrsta skiptið og því er leitast við að gera heimsóknina að skemmtilegri og ævintýralegri upplifun. 

Æskilegt er að hafa ekki fleiri en 15 börn í hverjum hópi til þess að þau njóti heimsóknarinnar betur.

Markmið heimsóknar

Að börn kynnist hugtakinu safn og upplifi safnið sem skemmtilegan stað til að heimsækja og tengi gripi í safninu við atriði sem þau þekkja í sínu daglega lífi.

Fyrirkomulag

  • Tekið er á móti hópnum í anddyri og byrjað er á að fara niður í fatahengi og klæða sig úr útifötum, það er þó mælt með að börnin séu áfram í fótbúnaði. Hópurinn sest í anddyri, safnfræðslufulltrúi býður börnin velkomin og kynnir fyrir þeim heimsóknina og veltir upp ýmsum spurningum eins og hvað sé eiginlega geymt í Þjóðminjasafninu.
  • Hópurinn gengur með safnfræðslufulltrúa um safnið sem sýnir ýmsa forvitnilega gripi. Ýmsum gripum á safninu fylgja ævintýralegar sögur sem börnunum verða sagðar.
  • Að heimsókn lokinni fer hópurinn saman niður í anddyri og börnin setjast á bekkinn eða í stigann og safnfræðslufulltrúi kveður hópinn áður en haldið er aftur í leikskólann.

Heimsóknin tekur um 45-60 mínútur.