Ljósmynd mánaðarins
  • 1_Gudbjartur-Asgeirsson.-GA-101

Matsveinn á fiskiskipi

Janúar 2012

Ritstj. Steinar Örn Atlason

Guðbjartur Ásgeirsson. GÁ 101.

Hér er Guðbjartur Ásgeirsson (1889-1965) matsveinn að störfum á togaranum Helgafelli (áður Surprise GK 4) í apríl eða maí 1946. Skipið er orðið gamalt og enn gert út frá Hafnarfirði þrátt fyrir að búið sé að selja það til Vestmannaeyja. Guðbjartur er klæddur í hefðbundin vinnuföt matsveina á stærri skipum, hvíta skyrtu, húfu og svuntu. Hann hrærir í pottinum og brosir við.

Matsveinar voru ný starfsstétt á íslenskum fiskiskipum (skútum) á síðari hluta 19. aldar, en áður virðast hásetar hafa skipst á um að sjóða fisk, kjöt og graut, ef eldavél var um borð, og á sumum bátum var eingöngu borðaður kaldur matur. Reglugerð um mataræði á íslenskum skipum var sett í fyrsta skipti árið 1890 og gerði m.a. vissar kröfur varðandi eldamennsku. Ekki var hvítum vinnufatnaði fyrir að fara á þeim tíma, hann þekktist aðeins á stærstu skipum, en sumir kokkar þóttu hinir mestu sóðar.

Framan af var sú afstaða ríkjandi að í störf matsveina réðust aðallega ónytjungar og var það talið hið versta skammaryrði að vera kallaður „kokkur á fiskijakt“, sem var ein algengasta tegund fiskiskúta á 19. öld. Eldamennska var hlutverk kvenna frá alda öðli og hefur sennilega þótt niðurlægjandi fyrir „fullfríska“ karlmenn að sinna þannig verkum í karlasamfélaginu um borð þar sem veiðarnar voru aðalatriðið. Viðhorf til starfsins, léleg laun og lág félagsleg staða stuðluðu jafnframt að því að fáir sóttust eftir að verða kokkar en það breyttist þegar á leið.

Ekki var heldur krafist neinnar menntunar af kokkum lengi vel enda kunnu sumir harla lítið fyrir sér og árangurinn eftir því. Matsveinn sem sinnti starfi sínu af alúð var þó mikils metinn og átti þátt í að skapa gott andrúmsloft um borð, og skipti þá persónuleiki hans og lundarfar einnig verulegu máli.

Sem viðleitni til þess að auka gæði eldamennskunnar gaf Útgerðarmannafélagið í Reykjavík út Leiðarvísi fyrir matsveina á íslenzkum fiskiskipum árið 1899 og aftur 1909. Farið var að halda námsskeið fyrir kokka á fiskiskipum 1914 og fór þeim námskeiðum fjölgandi þegar fram í sótti og var kennt víða um land. Eiginlegur matsveinaskóli tók ekki til starfa fyrr en 1955.

Guðbjartur Ásgeirsson var lengst af matsveinn á togurum en færði sig yfir á millilandaskip á síðari hluta starfsævi sinnar. Guðbjartur var einnig mikilvirkur áhugaljósmyndari og eftir hann liggur merkt safn sjávarútvegsmynda sem varðveittar eru í Ljósmyndasafni Íslands, Þjóðminjasafni.

Ágúst Georgsson

Póstlisti Þjóðminjasafnsins

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.