Húsasafn

Húsasafn Þjóðminjasafns Íslands

Gömul hús í eigu safnsins varðveitt um allt land

Húsasafn Þjóðminjasafnsins varð til er safnið tók gömul hús í vörslu sína eitt af öðru, þegar það var eina leiðin til að bjarga þeim frá eyðileggingu eða niðurrifi. Smátt og smátt myndaðist heilt safn húsa og er fjöldi þeirra nú kominn á fimmta tug . Safnið veitir ágæta innsýn í húsakost þjóðarinnar á seinni öldum og þróun húsagerðar á Íslandi. Húsasafnið er kjarni safnkosts Þjóðminjasafns Íslands á landsbyggðinni.

Torfhús

Glaumbær gangurMeðal húsa Þjóðminjasafnsins eru allir stærstu og merkustu torfbæir landsins og allar þær torfkirkjur sem eru í upprunalegri gerð. Í Húsasafninu er stærsta safn torfhúsa sem til er.

Efnisnotkun

Íslensk húsagerð að fornu markaðist að verulegu leyti af því hvaða efni var tiltækt til bygginga hverju sinni. Lítill torfskurður var t.d. víða á Vestfjörðum en aftur á móti mjög gott hleðslugrjót. Þess vegna eru hleðslur torfhúsa á því svæði nær eingöngu úr grjóti. Dæmi um þetta í Húsasafninu eru hjallur í Vatnsfirði og Litlibær í Skötufirði. Gott byggingartorf er hins vegar bæði að finna í Skagafirði og Eyjafirði og eru veggir torfbæjanna í Glaumbæ í Skagafirði og Laufási í Eyjafirði til marks um það. Á Grenjaðarstað í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu hefur hraungrýti þar í kring þótt hentugast í veggi bæjarins og er jafnframt dæmi um byggingarefni á svæðum sem mörkuð eru af eldsumbrotum. Sama máli gegnir um veggi torfbæjanna á Þverá í Laxárdal, Grænavatni í Mývatnssveit og Keldum á Rangárvöllum.

Þök torfhúsa eru byggð upp með tveimur lögum hið minnsta, ofan á sperrum gat ýmist verið timbursúð, hrís eða hellur af einhverju tagi. Ofan á nærþakið var svo torfið lagt. Það gat verið mjög breytilegt eftir staðháttum og aðstæðum hvert innra lagið var. Í vandaðri húsum var ýmist reisifjöl eða skarsúð af timburborðum en í óvandaðri húsum var víða notað hrís. Þetta á við um flesta stóru torfbæina á Norðurlandi. Á Suðausturlandi vex mikið af melgresi og er melur undir torfþekju á sauðahúsum í Álftaveri (reist um 1900). Á hinu úrkomusama Suðurlandi hafa ábúendur í gamla bænum á Keldum á Rangárvöllum áður fyrr glímt við þakleka með því að leggja grjóthellu, líkt og frumstæða þakskífu, undir torfþekjuna.

Gerðir torfbæja

Sauðahús í ÁlftaveriÍslenski torfbærinn á sér sögu sem einstæð er í heiminum og er ekki rannsökuð til fulls. Torfbærinn er í raun þyrping húsa sem tengd eru saman með göngum. Það er sjaldnast svo að öll hús í torfbæjum séu frá sama tíma. Hús voru byggð í ákveðnum tilgangi og endurbyggð eftir því sem þurfa þótti. Torfbæir eiga sér því víða órofna byggingarsögu, sums staðar allt frá fyrstu öldum byggðar. Eins og torfbæir birtast nútímanum eru þeir afurðir aldalangrar þróunar. Það er því skilgreiningaratriði hversu gamlir þeir eru þó svo byggingarár einstakra húsa sé oft þekkt. Af torfbæjunum hafa þróast allnokkrar formgerðir sem breyst hafa í aldanna rás og hafa húsin verið löguð að aðstæðum og stíl á hverjum tíma. Húsaskipan flestra uppistandandi torfbæja er nútímaleg, síðasta stig í langri þróun. Greindar hafa verið mismunandi gerðir af skipulagi torfbæja sem eru að vissu marki héraðs- eða landshlutabundnar. Þannig eru stóru norðlensku torfbæirnir allir af sömu gerð sem gengur undir nafninu „norðlenska gerð”. Innbyrðis húsaskipan þeirra er keimlík frá einum bæ til annars þó húsin séu mismörg á hverjum stað. Það sem einkennir þá er að framhús snúa öll stöfnum fram á hlað, bæjargöngin liggja inn af þeim og bakhús eru hornrétt á bæjargöngin. Af margvíslegum ástæðum, ekki síst veðurfarslegum, hafa torfbæir varðveist betur á Norðurlandi en fyrir sunnan þannig að fleiri sýnishorn eru varðveitt um hina norðlensku gerð en allar aðrar samanlagt. Þetta eru torfbæirnir í Glaumbæ í Skagafirði, á Hólum í Hjaltadal (Nýibær), í Laufási í Eyjafirði, Hólum í Eyjafirði, á Grenjaðarstað í Aðaldal og Þverá í Laxárdal.

Önnur gerð torfbæja kallast „sunnlenska gerð” þó svo dæmi séu um hana víðar um landið. Af þeirri gerð er Selið í Skaftafelli. Einkenni bæja af sunnlensku gerð er mikill fjöldi framhúsa sem snúa stöfnum fram á hlað en innangengt er þó frá húsi til húss. Bustarfell í Vopnafirði má telja til millistigs norðlensku og sunnlensku gerðar.

Viðgerð í LaufásiÞriðja gerð torfbæja tekur nafn sitt af bænum þar sem hún varðveittist, kölluð „Galtastaðagerð” eftir Galtastöðum fram í Hróarstungu. Þar liggur baðstofuhús langsum eftir hlaði. Niðri er fjós en baðstofan sjálf er á loftinu og kallast þess vegna fjósbaðstofa. Þannig naut heimilisfólkið hitans af kúnum. Slíka baðstofu er einnig að finna í Selinu í Skaftafelli.

Einn af örfáum varðveittum torfbæjum á Suðurlandi er á Keldum á Rangárvöllum og er hann af fornri gerð, kölluð „fornagerð” eða „Keldnagerð” eftir bænum. Þar eru framhús samsíða hlaði ólíkt því sem gerist á norðlensku bæjunum. Er þetta í raun svipmót sem haldist hefur allt frá miðöldum.

Yngsta gerð torfbæja gengur undir nafninu „Marbælisgerð” og einkennist hún af svokölluðum framhúsum, sem voru í raun timburhús fremst í bænum. Grænavatn í Mývatnssveit er dæmi um þessa gerð og er framhúsið (1913) óvenju reisulegt. Arngrímsstofu (1884), að Gullbringu í Svarfaðardal, má einnig telja með framhúsum. Þar hafði Arngrímur Gíslason (1829-87) málari vinnustofu sína og er hún elsta hús af slíkum toga hér á landi. Bæði húsin eru í raun timburhús en torfi eða grjóti er hlaðið upp að þeim til hlífðar.

Torfkirkjur

Hofskirkja í ÖræfumÍ Húsasafni Þjóðminjasafns eru allar torfkirkjur landsins sem varðveist hafa í upprunalegri gerð. Þær eru í Gröf á Höfðaströnd (líklega reist á seinni hluta 17. aldar en allir viðir endurnýjaðir 1953) og á Víðimýri í Skagafirði (1834), í Saurbæ í Eyjafirði (1858), á Hofi í Öræfum (1883-85) auk bænhússins á Núpsstað (líklega um miðja 19. öld, hugsanlega eldra).

Leifar torfbæja

Auk hinna heillegu torfbæja og torfkirkna varðveitir húsasafn Þjóðminjasafns merka húshluta og aðrar byggingarleifar frá fyrri öldum. Á Stóru-Ökrum í Skagafirði standa enn bæjardyr, göng og stofa bæjar þess sem Skúli Magnússon landfógeti lét byggja þar á árunum 1743-45.

Uppbygging bæjardyra á ReynisstaðÁ Reynistað í Skagafirði hefur varðveist bæjardyrahús sem eru leifar af bæ frá því skömmu eftir 1758. Í tveimur síðastnefndu húsunum getur að líta smíðalag á timburgrindinni sem algengt var á Íslandi um aldir, þ.e. stafverk sem lagðist smám saman af á 18. og 19. öld. Þetta byggingarlag má einnig sjá með skýrum hætti á innviðum torfkirkjunnar í Gröf á Höfðaströnd, í skála og stofu á Hólum í Eyjafirði og á Keldum á Rangárvöllum. Víða má sjá leifar þess í einstökum húshlutum eða útihúsum, t.d. í hluta bæjarganganna í Laufási í Eyjafirði.

Timburhús

Nokkur fjöldi timburhúsa er í húsasafni Þjóðminjasafns. Mörg þeirra eru upphaflega verslunarhús af einhverjum toga, langflest af elstu gerð íslenskra timburhúsa, sem var undir sterkum dönskum áhrifum. Af þeim má telja Húsið á Eyrarbakka (1765), pakkhúsið á Hofsósi (1777) og Lónsstofu á Skipalóni (1824) til stokkhúsa, þ.e. veggir þeirra eru hlaðnir upp af veglegum timburstokkum eða plönkum. Stokkbyggingin sést þó einungis á ytra byrði pakkhússins á Hofsósi en Lónsstofa er múrhúðuð og timburþil er á ytra byrði Hússins á Eyrarbakka. Smíðahús á Skipalóni var byggt um miðja 19. öld en ber þó svipmót hins gamla byggingarlags undir dönskum áhrifum. Sama máli gegnir um húsið á Teigarhorni við Berufjörð, sem byggt var fyrir Weywadt kaupmannsfjölskylduna. Hús þessi voru upphaflega tjörguð en hið síðasttalda var klætt pappa. Af yngri gerðum timburhúsa eru Viktoríuhús í Vigur (um 1860) og Assistentahús á Eyrarbakka (1881) sem áfast er Húsinu. Að utanverðu er Assistentahúsið með láréttri klæðningu, s.k. vatnsklæðningu sem algeng var á þeim tíma er húsið var byggt. Þá er vindmyllan í Vigur, í nágrenni Viktoríuhúss, sú eina sem eftir er á landinu.

Timburkirkjur

Viðgerð á HraunskirkjuÍ húsasafninu eru nokkrar gerðir timburkirkna. Af elstu gerð eru kirkjurnar á Sjávarborg í Skagafirði (1853), í Tungufelli (1856) og Hrauni í Keldudal (1885). Allar eru þær turnlausar en hin síðasttalda sker sig úr fyrir þær sakir að á þaki hennar er tréspónn svipað og þekkist á þökum húsa frá svipuðum tíma víða á Norðurlöndum. Kirkjur með turni eru nú þrjár í húsasafninu. Staðarkirkja á Reykjanesi (1864) er dæmi um kirkju af „turngerð eldri“, þar sem þakbrún nær alveg niður að gluggabrún, en Kirkjuhvammskirkja (1882) og Reykholtskirkja (1886) eru af „turngerð yngri“, sem einkennist af meiri vegghæð og er þá stutt þil frá glugga upp að þakbrún. Sú síðarnefnda ber sterkan keim af Dómkirkjunni í Reykjavík.

Klukknaportið á Möðruvöllum í Eyjafirði er hið elsta sinnar tegundar á landinu en slík port voru algeng við kirkjur fyrr á öldum. Það er að stofni til frá um 1780.

Steinhús

Í Húsasafninu er að finna nokkur hús úr steini. Er þar fyrst að nefna Sómastaði við Reyðarfjörð (1875), stofuhús sem byggt var við torfbæ sem þar stóð og er nokkurs konar millistig milli torfhúsatækni og hefðbundinnar steinhleðslu þar sem veggir voru hlaðnir úr ótilhöggnu grjóti sem bundið var saman með smiðjumó. Sæluhús við Jökulsá á Fjöllum (1883) er hlaðið úr tilhöggnu grjóti af svæðinu að hætti steinsmiða. Þróuð og hefðbundin steinhöggstækni var hins vegar notuð við prestsbústað á Sauðanesi á Langanesi (1879-81) og við Nesstofu við Seltjörn (1761-63) þótt langt sé milli byggingartíma þeirra. Bæði eru húsin húðuð með kalk-pússningu og eru því hvít að lit. Engin steinsteypt hús eru í húsasafninu en þau fyrstu af þeirri gerð voru byggð hér á landi skömmu fyrir aldamótin 1900.Póstlisti Þjóðminjasafnsins

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.