Fræðslu- og kynningarefni

Geisladagur

Geisladagur er 13. janúar

Nafn dagsins er ekki fullskýrt, enda án hliðstæðu í málum grannþjóðanna.

Nafnið Geisladagur sést fyrst notað á 14. öld en áður er dagurinn jafnan nefndur hinn áttundi frá þrettándanum og dregur af því helgi sem fleiri áttundardagar. Þrettándinn var upphaflega minningardagur um skírn Krists og almennur skírnardagur fullorðinna í austurkirkjunni og er þar kenndur við ljós, sem mjög voru notuð við þessar athafnir. Sennilegast er að íslenska nafnið sé þaðan komið, hugsanlega vegna áhrifa frá flökkutrúboðum frá austurkirkjunni á fyrstu öldum kristni. Á miðöldum var skírnarminningin innan Rómarkirkjunnar smám saman færð frá þrettándanum til áttundardags hans, og eru um það norskar heimildir frá því um 1200. Á Íslandi sést þessi breyting í skjali frá 16. öld. Geisladagsnafnið kynni að hafa fest við daginn með hinu nýja skírnarhlutverki hans á 14. öld.

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson, 1996