Fréttir

Dagskrá Þjóðminjasafns Íslands í tilefni 100 ára fullveldisafmælis

Hátíðardagskrá Þjóðminjasafns Íslands er liður í veglegri dagskrá 100 ára afmælis fullveldis Íslands

Hátíðarsýningar

24. nóvember kl. 14 – Opnun hátíðarsýninga Þjóðminjasafns Íslands í Bogasal, Myndasal og á Vegg

Hátíðarsýningar Þjóðminjasafnsins verða opnaðar 24. nóvember kl. 14 og eru þær helgaðar kirkjum Íslands. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir opnar hátíðarsýningarnar.

Í Bogasal verður opnuð sýningin Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur. Á sýningunni er fjallað um kirkjugripi og hvernig þeir tengjast straumum og stefnum í hinni alþjóðlegu listasögu. Ný og einstæð yfirsýn hefur fengist á kirkjugripi í friðuðum kirkjum landsins í tengslum við útgáfu bókaflokksins um Kirkjur Íslands sem nú hefur komið út í 31 bindi. Ritröðin er gefin út í samstarfi við Biskupsstofu og Minjastofnun Íslands. Sýningin er unnin í samstarfi við kirkjur og menningarminjasöfn landsins sem lána gripi á sýninguna. 

Í Myndasal verður opnuð sýningin Kirkjur Íslands: Með augum biskups og safnmanna. Kirkjur og kirkjugripir urðu þremur mönnum rannsóknarefni á 20. öld og allir skráðu þeir rannsóknir sínar með myndrænum hætti: Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Jón Helgason biskup og Þór Magnússon þjóðminjavörður. Úrval mynda þessara þriggja manna veita innsýn í íslenskar kirkjubyggingar og þann menningararf sem þær hafa að geyma. Á Vegg verða sýndar myndir Heiðu Helgadóttur, ljósmyndara af trúarlífi í samtíma. 

Fyrr á árinu var opnuð sýningin Kirkjur Íslands: Leitin að klaustrunum. Sýningin byggir á rannsókn Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. 

 1. desember - Þjóðminjasafn Íslands

Á fullveldisdaginn 1. desember er frítt í Þjóðminjasafn Íslands.   


Með ungum augum – leikin leiðsögn Leynileikhússins um nýjar hátíðarsýningar og grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands

Hvernig sjá ung augu menningararf Íslands út frá völdum gripum fyrri alda á sýningum Þjóðminjasafnsins? Í hvaða áttir beina túlkendur á unglings- og barnsaldri hugsun gesta um siði og venjur áður fyrr? Til að komast að þessu eru forvitnir gestir á öllum aldri velkomnir í leikna leiðsögn fjögurra ungra sviðslistanema hjá Leynileikhúsinu. Gestum boðið að ganga í gegnum grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands Þjóð verður til. Menning og samfélag í 1200 ár og hátíðarsýninguna Kirkjur Íslands í fylgd ungra, skapandi huga.

Leiðsögnin er ókeypis og öllum opin. Hún hefst kl. 13 laugardaginn 1. desember og er endurtekin sama dag kl. 15. Leiðsögnin er einnig í boði sunnudaginn 2. desember kl. 13 og 15.

Afhending tveggja nýdoktorastyrkja í Veröld - Húsi Vigdísar

Fyrr á árinu voru auglýstir tveir nýdoktorastyrkir vegna 100 ára afmælis sjálfstæðis Íslands. Fyrir styrkveitingunni stendur Carlsberg sjóðurinn og buðust tveir nýdoktorastyrkir, hvor um sig í tvö ár. Verkefnið er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands og Þjóðarsögusafnsins í Friðriksborgarkastala og Háskóla Íslands. Þjóðminjavörður og safnstjóri Þjóðarsögusafnsins í Friðriksborg munu undirrita samkomulag um samstarf safnanna af þessu tilefni en markmiðið er að styrkja samstarf háskólans og safnanna til framtíðar litið. Nýdoktorstöðurnar verða afhentar að viðstaddri hennar hátign Margréti Þórhildi Danadrottningu.


Ný ásýnd Þjóðminjasafns og ársaðgangur að gjöf til gesta á 100 ára afmæli fullveldis Íslands

Það tekur tíma að fara í ferðalag sem nær yfir 1200 ár. Nú er miðinn þinn í Þjóðminjasafnið og Safnahúsið líka árskort. Hann gildir í heilt ár svo þú hefur nægan tíma og ert velkomin/n eins oft og þú vilt.

Ný ásýnd safnsins markast af sterkum litum, með með skýra tilvísun í þjóðminjar og menningararf. Hin nýja mörkun felur í sér fyrirsagnaletur sem er samansett úr fjórum leturgerðum sem hafa verið notaðar á Íslandi í gegnum aldirnar: Íslenskar fúþark rúnir voru í almennri notkun í útskurði hér á landi frá landnámi og út 19. öld. Fraktúrletur eða gotneskt letur vísar í leturgerðina í miðaldahandritum og í prentverki fram að 20. öld. Höfðaletur er séríslensk leturgerð sem notuð var í útskurði á ýmsum skrautmunum frá 16. öld. Greta Sans, sem verður almennt letur safnsins flokkast undir steinskrift og vísar til nútímans.

Aðgangseyrir að safninu fyrir fullorðna er kr. 2000. Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis mun aðgöngumiðinn einnig gilda sem árskort frá 1. desember. Innifalinn er aðgangur að öllum sýningum og viðburðum á vegum safnsins í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og Safnahúsinu á Hverfisgötu frá fullveldisdeginum 1. desember 2018 til 30. nóvember 2019. Frír aðgangur er fyrir börn að 18 ára aldri. 


Sýningaropnun í Jónshúsi í Kaupmannahöfn – Heimili Ingibjargar og Jóns. Miðstöð Íslendinga í Kaupmannahöfn

Þann 6. desember verður opnuð sýning á heimili Ingibjargar Einarsdóttur og Jóns Sigurðssonar í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Heimili Ingibjargar og Jóns er endurgert á grundvelli heimilda um líf þeirra hjóna í Kaupmannahöfn, byggingasögulegra rannsókna á íbúðinni sjálfri auk sagn- og safnafræðilegra rannsókna á heimilislífi um miðbik 19. aldar í Kaupmannahöfn. Á sýningunni er sjónum beint að heimili hjónanna sem miðstöðvar fyrir Íslendinga og þætti Jóns Sigurðssonar í sjálfstæðisbaráttunni. Þjóðminjasafn Íslands annast sýningarstjórn fyrir hönd Alþingis.


#fullveldisdagurinn #fullveldi1918