Fréttir

Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar

Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld.

25.10.2016

Ritröðin Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar fagnar um þessar mundir útgáfu sinnar 20. bókar. 

Fyrsta bókin, Bræður af Ströndum: Dagbækur, ástarbréf, almenn bréf, sjálfsævisaga, minnisbækur og samtíningur frá 19. öld, kom út í samantekt Sigurðar Gylfa Magnússonar árið 1997. Á þessu ári hafa tvær bækur komið út, það er bókin Fátækt og fúlga sem Jón Ólafur Ísberg og Sigurður Gylfi Magnússon unnu og bók Guðrúnar Ingólfsdóttur, Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar: Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld, en útgáfudagur hennar tengist sýningunni. Af þessu tilefni verður opnuð 3. nóvember kl. 17 sýning á Torginu í Þjóðminjasafni Íslands í samvinnu safnsins og ritstjóra Sýnisbókanna. Þar verða bókakápur ritraðarinnar sýndar en þær eru allar hannaðar af Öldu Lóu Leifsdóttur bókahönnuði.

Ritröðin er gefin er út á vegum Háskólaútgáfunnar og Miðstöðvar einsögurannsókna við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, í samvinnu við Sögufélag, en ritstjórar hennar eru Davíð Ólafsson, Már Jónsson og Sigurður Gylfi Magnússon. Sverrir Sveinsson prentari hefur brotið um allar bækurnar og átt stóran þátt í að hana útlit þeirra og heildarsvip. Þá er sömuleiðis ástæða til að varpa ljósi á hið frábæra starfi Háskólaútgáfunnar undir forystu Jörundar Guðmundssonar, en án stuðnings hennar hefði aldrei orðið neitt af útgáfu þessara 20 bóka. Aðstandendur ritraðarinnar vilja nota tækifærið á þessum tímamótum bæði að fagna og vekja athygli á stórkostlegu framlagi þess fólks sem og höfunda bókanna sem margir hafa stigið sín fyrstu skref á ritvellinum á vettvangi Sýnisbókanna.

Frá fyrsta degi hafa Sýnisbækurnar verið þróaðar með ákveðna hugmyndafræði í huga: Í fyrsta lagi var hugmyndin að gefa lesendum kost á að komast í kynni við ótrúlega ríkulegan handritaarf frá síðari öldum sem varðveittur er í söfnum víða um land, en ef til vill fyrst og fremst í Handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólasafns. Í öðru lagi hefur jafnan vakið fyrir ritstjórum að brúa bilið milli fræðanna og áhugamanna um sögu þjóðarinnar. Ritstjórarnir voru þeirrar skoðunar að dagbækur, bréf og sjálfsævisögur væru líklegar heimildir til að vinna hug og hjörtu lesenda og þá væri tilætluðum árangri náð. Auk persónulegra gagna af ýmsu tagi hefur ritröðin birt margvísleg opinber gögn en alltaf með skýrri tengingu við einstaklinga og þjóðfélagshópa sem voru viðfang þeirra í sýnu daglega lífi. Í þriðja lagi hefur það verið frá upphafi markmið ritstjóra að búa til vettvang fyrir háskólanemendur sem sýnt höfðu mikinn áhuga á heimildunum og úrvinnslu þeirra. Sá draumur hefur sannarlega ræst því margir höfundar ritraðarinnar eru fyrrverandi nemendur okkar og samstarfsmenn. Í fjórða og síðasta lagi vildum við freista þess að gefa vísindamönnum í hug- og félagsvísindum kost á að kynnast innihald einkaskjala sem hafa aðallega verið birt í ritröðinni. Það hefur verið trú okkar að þessar heimildir sem oft eru flóknar og erfiðar í úrvinnslu geti opnað nýja sín á liðna tíð.