Fréttir

Ný sýning um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna

1.10.2013

Í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar þann 17. júní 2011 hefur svæði það í grunnsýningu safnsins þar sem fjallað er um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna verið endurgert. Nýja sýningin var opnuð á þjóðhátíðardaginn.

Á nýju sýningunni má sjá ýmsa gripi úr eigu Jóns og Ingibjargar konu hans. Einnig er þar margmiðlunarskjár þar sem lífsferill Jóns er rakinn og sagt rækilega frá ævistarfi hans. 

Margmiðlunarefnið spannar alla 19. öldina og býður upp á sex sjónarhorn. Þar  má skoða efni um einkahagi Jóns Sigurðssonar, vísindastörf hans og  stjórnmálaþátttöku og jafnframt er vakin athygli á samtímaviðburðum á Íslandi, í Danmörku og heiminum öllum.

Upplýsingar um viðburði sem haldnir verða á afmælisári Jóns Sigurðssonar má finna á vefnum www.jonsigurdsson.is.