Áttu forngrip í fórum þínum

Áttu forngrip í fórum þínum?

Sérfræðingar safnsins greina gripi

Tvisvar á ári, í mars og nóvember, býðst gestum að koma með gripi í greiningu til sérfræðinga safnsins. Margir eiga í fórum sínum erfðagripi eða ættargripi en vita lítið um uppruna þeirra og leikur þá kannski forvitni á að þekkja á þeim nánari deili.

Sunnudaginn 4. nóvember kl. 14-16 gefst fólki kostur á að koma með eigin gripi til greiningar hjá sérfræðingum Þjóðminjasafns Íslands. Greiningin er ókeypis og fer fram í fyrirlestrasal safnsins á 1. hæð. Á tjaldi í fyrirlestrasal er sýnt fræðsluefni um meðhöndlun gripa inni á heimilinu. Athugið að hámarksfjöldi gripa til greiningar eru 3 hlutir á mann.

Víða á heimilum fólks eru fornir eða gamlir gripir. Sumir eiga í fórum sínum erfðagripi eða ættargripi án þess að vita með vissu hve gamlir þeir eru og leikur þá kannski forvitni á að þekkja á þeim nánari deili. Þetta geta verið útskornir munir, skart eða hvaðeina sem virðist vera gamalt. Gripir þurfa alls ekki að vera frá miðöldum til að teljast gamlir og má í því samhengi benda á að grunnsýning Þjóðminjasafnsins „Þjóð verður til“ spannar öll 1200 árin í sögu Íslandsbyggðar, frá landnámstíma til 20. aldar. Þannig eru margar nýjungar síðustu áratuga nú orðnar „gamlar“ eða „fornlegar“.

Tekið skal fram að á þessum viðburði verður reynt að greina gripi út frá aldri, efni, uppruna, o.s.frv. Starfsmenn safnsins meta ekki verðgildi gripa. Eigendur taka gripina með sér aftur heim að lokinni skoðun.

Thor-Magnusson