Safnanótt

Safnanótt í Þjóðminjasafni

Menningarhátíð

Vetrarhátíð hefur verið árlegur viðburður á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2002.  Sundlauganótt, Safnanótt og Snjófögnuður eru meginstoðir hátíðarinnar. Allir viðburðir hátíðarinnar eru gestum að kostnaðarlausu og geta því allir borgarbúar notið kraftmikils menningarlífs og góðrar samveru yfir alla hátíðina. Þjóðminjasafnið býður uppá skemmtilega dagskrá frá kl. 18 - 23 á Safnanótt. Ókeypis aðgangur og dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Dagskrá:

 19.00 – 20.00

 Leiðsögn á íslensku um grunnsýninguna Þjóð verður til

Á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins er leitast við að draga upp skýra og heillega mynd af menningarsögu Íslendinga. Saga þjóðarinnar er rakin í tímaröð frá landnámi til dagsins í dag. Sögunni er skipt nokkuð jafnt í sjö tímabil og þannig er varpað ljósi á þau skeið sem í hefðbundinni sögutúlkun hafa gjarnan fallið í skuggann af þeim glæstari.

Hvert tímabil er auðkennt með sérstökum skáp, sem sýnir lykilgrip og gefur örstutt yfirlit um helstu einkenni tímans. Fyrir hvert tímabil eru valdir atburðir eða merkar nýjungar sem markað hafa spor í þjóðarsöguna en einnig er bent á þætti í sögunni sem lítið breytast um aldir. Saman mynda þessir atburðir sögu hvers tímabils sem sýnd er með gripum.

18.00 - 19.30

Siglt eftir stjörnunum

Sævar Helgi Bragason skoðar stjörnur og segir frá rötun. Krakkar og fullorðnir eru velkomnir og við búum til einfaldan sextant sem gerir okkur kleift að mæla breiddargráðu Íslands. Gestir læra líka áttirnar út frá stjörnunum. Ef veður leyfir verður kíkt á stjörnuhimininn.

Sextant er hornamælingatæki til staðarákvörðunar á sjó þar sem farið var eftir hæð sólar, tungls eða stjörnu. 

20.00 – 20.45

Bergmál í undirgöngum 

Í tilefni ljósmyndasýningarinnar Langa blokkin í Efra Breiðholtinu stýrir Lóa Hjálmtýsdóttir rithöfundur og myndlistarkona upplestri í Myndasal. Rithöfundarnir Sjón, Eva Rún Snorradóttir, Halla Birgisdóttir, Kristín Eiríksdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir lesa upp úr eigin verkum.

Lengd blokkarinnar á ljósmyndasýningunni er um 320 metrar og í fljótu bragði líkist hún helst virkisvegg. Innan hennar eru tuttugu stigagangar og 200 íbúðir þar sem búa nokkur hundruð manns. David Barreiro ljósmyndaði bygginguna, íbúana og umhverfið heima hjá þeim. Íbúarnir eiga það sameiginlegt að hafa reynslu af því að flytjast til Íslands víða að úr heiminum. Sjá nánar: http://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/sersyningar/syningar-i-gangi/