Safnanótt

Spekingar spjalla

Sérfræðingar frá söfnunum sem eiga verk á sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu eru við á sýningunni á milli kl. 20 og 21 og spjalla við gesti um valda sýningarhluta.

Frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verður Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor til viðræðu um þann kjörgrip sem nú er í öndvegi. Jóhanna Guðmundsdóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafni, spjallar við gesti um efni sérsýningarinnar Spegill samtímans 1770, um bréf landsmanna til landsnefndar. Frá Landsbókasafni mætir Gunnar Marel Hinriksson og ræðir einkum Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar og um galdra. Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og náttúrurýnir kemur frá Náttúruminjasafni Íslands og spjallar um listirnar, náttúruna og vísindin og samspilið þar á milli, með áherslu á Jón lærða Guðmundsson. Frá Þjóðminjasafni kemur Ágúst Ó. Georgsson og talar um myndablað sem sýnir helstu störf fólks til sveita á síðari hluta 19. aldar.