Tímabil
  • Valþjófstaðahurðin

1200-1400 í norska konungsríkinu

Á 13. öld var mikill ófriður á Íslandi. Honum lauk um 1262-1264 er landsmenn urðu þegnar Noregskonungs. Á næstu öld jukust fiskveiðar og sjávarafurðir urðu helsta útflutningsvaran.

 Á fyrri hluta 13. aldar tókust voldugustu goðarnir á um yfirráðin í landinu. Bardagar voru Thjms-syn26háðir með sverðum, spjótum, öxum og grjótkasti. Á sama tíma skrifuðu Íslendingar á móðurmáli sínu sögur sem nú þykja sígildar heimsbókmenntir.Noregskonungur vildi stækka ríki sitt og með Gamla sáttmála 1262-1264 gerðust Íslendingar þegnar hans. Þá lauk þjóðveldi og ófriðnum létti. Íslendingar fengu ný lög og nýtt stjórnkerfi. Fiskveiðar jukust mikið á 14. öld og kom hertur fiskur í stað vaðmáls sem helsta útflutningsvara landsmanna. Fiskveiðar voru þó áfram að mestu aukabúgrein bænda.

Gripir 13. og 14. aldar

Ennþá einkennist tímabilið af því að varðveittir gripir hafa í mörgum tilfellum verið í jörðinni öldum saman. Annars hefðu þeir glatast. Vopnaskaki Sturlungaaldar sér stað í sverðum og spjótum sem fundist hafa hér og þar um landið.sverð

Minjar um atvinnuhætti eru fátíðar í söfnum þótt ein­staka steðji til járnsmíða og önglar til fisk­veiða beri fyrir augu. Elstu klæðisplögg og vaðmál­s­pjötlur hafa komið upp við fornleifarannsóknir. Nú fjölgar þeim gripum sem varðveist hafa ofan jarðar.

Kirkjan leggur okkur mest til af gripum inni á söfnunum. Veldi hennar birtist í helgigripum sem ýmist voru keyptir frá útlöndum eða skap­aðir hér á landi. Húsa­viðir voru skornir út hér, kaleikar drifnir úr silfri og klæði og reflar saumuð út.

Valþjófsstaðahurðin - lykilgripur tímabilsins 1200-1400

Útskorin kirkjuhurð frá Valþjófsstað í Fljótsdal frá um 1200. Hurðin, sem er með miklum útskurði í rómönskum stíl, er skorin út á Íslandi. Talið er að hún hafi upphaflega verið um þriðjungi hærri og hringirnir þá þrír.

ValþjófstaðahurðinÁ hurðinni er silfursleginn járnhringur með innlögðu rósamunstri. Í efri hringnum er þekkt miðaldasaga í þremur þáttum. Neðst sést riddari á hesti sínum og flýgur veiðihaukur með. Riddarinn leggur sverði gegnum dreka sem vafið hefur halanum um ljón. Í næsta þætti, efst til vinstri, sést þakklátt ljónið fylgja lífgjafa sínum en veiðihaukurinn situr á makka hestsins. Í síðasta þætti, efst til hægri, liggur ljónið á gröf riddarans og syrgir hann. Í baksýn er lítil stafkirkja og á gröfinni er rúnaletur: "Sjá inn ríkja konung hér grafinn er vá dreka þenna." Í neðri hringnum eru fjórir drekar sem vefjast saman í hnút.

Margar íslenskar miðaldakirkjur voru skreyttar útskurði. Búnaður þeirra og íburður bera vitni um auðlegð og völd eigendanna og sýna jafnframt tengsl Íslendinga við nágrannaþjóðir sínar. Valþjófsstaðahurðin er eina útskorna hurðin sem varðveist hefur. Hún var fyrir kirkjum á Valþjófsstað allt til 1851 þegar hún var flutt til Kaupmannahafnar. Árið 1930 skiluðu Danir hurðinni til baka ásamt fjölda annarra ómetanlegra gripa.

Róðukrossar, krossar með Kristslíkneskjum, voru í flestum kaþólskum kirkjum. Við siðbreytinguna voru margar dýrlingamyndir eyðilagðar en krossar í kirkjum fengu fremur að vera í friði.