Tímabil

800-1000 Upphaf Íslandsbyggðar

Vegna legu sinnar var Ísland óbyggt lengur en flest lönd heimsins. Fyrir rúmum 1100 árum byggðist landið fólki sem kom einkum frá Noregi. Hér var konungslaust samfélag þar sem goðar réðu mestu.

Á víkingaöld smíðuðu Norðurlandabúar loks svo fullkomin skip að menn gátu siglt til Íslands frá Noregi og norrænum víkingabyggðum á Bretlandseyjum. Búseta hófst í landinu um 870.

Margt hlýtur að hafa verið framandi. Skógar voru aðallega lágvaxið birki og graslendi var ríkulegt. Landnemar hafa sennilega ekki kynnst eldgosum eða gjósandi hverum fyrr en á Íslandi.

Enginn konungur réð yfir Íslandi en goðar, heiðnir höfðingjar landsmanna, stofnuðu eitt þing fyrir allt landið. Um aldamótin 1000 tóku Íslendingar kristni.

Gripir 9. og 10. aldar

Varðveittir safngripir frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa fundist í jörðu á síðustu 200 árum, ýmist við skipulegar fornleifarannsóknir eða sem lausafundir. Það þýðir að þeir hafa fundist á yfirborði jarðar, en aðstæður hafa ekki leyft frekari rannsóknir. Þessir gripir eru tímasettir út frá því við hvers konar aðstæður þeir fundust. Einnig má nýta gerðþróunarfræði, þar sem gerð þeirra og e.t.v. mynstur eru notuð til aldursgreiningar.1-BB

Flestir þessara gripa eru úr ólífrænu efni eins og málmi, en hér á landi er mun fátíðara að gripir úr lífrænu efni, svo sem viði og beini, hafi varðveist. Algengast er skart og vopn auk ýmiss konar járngripa. Sáralítið er um að fatnaður hafi varðveist frá þessum tíma. Hið eina sem vitnar um klæðaburð fólks eru skartgripir eins og nælur og hringprjónar.

 skart frá víkingaöldFrekari vitneskja um líf og störf fólks á fyrstu öldum hefur fengist síðari ár eftir því sem fornleifarannsóknum fleygir fram. Þeirrar vitneskju sér ekki alltaf stað í varðveittum gripum. Hún birtist í niðurstöðum rannsókna á gróðurfari, beinaleifum, jarðlögum og fleiri þáttum sem skráðir eru og rannsakaðir við fornleifagröft.

 

Þór - lykilgripur tímabilsins 800-1000

Þórslíkneskið svokallaða er lítið mannslíkan úr bronsi. Ákveðin stíleinkenni benda til þess að líkneskið hafi verið gert nálægt aldamótunum 1000. Það hefur verið talið sýna Þór sem var einn fremsti guð norrænna manna í heiðnum sið. Bronskarlinn heldur báðum höndum um hlut sem talinn hefur verið Þórshamar, en líkist mjög kristnum krossi.

Líkneskið fannst árið 1815 eða 1816 hjá öðru hvoru Eyrarlandi við Eyjafjörð. Það var sent til Kaupmannahafnar árið 1817 en kom aftur til Íslands 1930 ásamt ýmsum öðrum forngripum úr Þjóðminjasafni Dana. Á tímabilinu 800-1000 var heiðin trú ríkjandi á Íslandi en allt frá landnámi bjuggu hér kristnir menn að því er virðist í friðsamlegri sambúð við þá heiðnu.

Hér má skoða líkneskið í þrívídd: