Eldri sýningar

Einvígi aldarinnar. Fischer og Spassky – 40 ár

  • 3.3.2012 - 31.1.2013, Hornið - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Skákeinvígið sem kallað hefur verið „einvígi aldarinnar“ var háð í Reykjavík sumarið 1972. Þar tókust á fulltrúar risaveldanna á tímum „Kalda stríðsins“, Bandaríkjamaðurinn Bobby Fischer og sovéski heimsmeistarinn Boris Spassky. Í tilefni þess að í ár eru liðin 40 ár frá einvíginu má sjá sýninguna Einvígi aldarinnar. Fischer og Spassky – 40 ár í Horni á 2. hæð í Þjóðminjasafni Íslands. Á sýningunni eru munir og myndir sem tengjast skákeinvíginu 1972.

Fyrsta skák einvígisins var tefld í Laugardalshöll þann 11. júlí 1972,  en 1. september gaf Spassky 21. skák einvígisins og Fischer var nokkrum dögum síðar krýndur heimsmeistari. Lokatölur urðu 12 ½ vinningur á móti 8 ½ vinningi. Þar með lauk einvígi sem vakti meiri athygli en nokkur annar skákviðburður fyrr og síðar. Atburðarás einvígisins var fréttaefni sjónvarpsstöðva og dagblaða um allan heim. Um einvígið hafa verið skrifaðar fleiri en 140 bækur og gerðir ótal sjónvarpsþættir.

Sýningin er unnin í samvinnu Skáksambands Íslands og Þjóðminjasafns Íslands.