Eldri sýningar

Hugsað heim

Inga Lísa Middleton

  • 3.6.2017 - 12.9.2017, 10:00 - 17:00, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu
  • Inga Lisa

Titill sýningarinnar Hugsað heim vísar bæði til viðfangsefnis myndanna og þess draumkennda blæs sem einkennir þær. Ljósmyndarinn Inga Lísa Middleton er búsett í Bretlandi og sýnir á Vegg í Þjóðminjasafni Íslands myndir frá heimalandinu Íslandi. Myndirnar vinnur hún með aðferð sem nefnist Cyanotype og gefur myndunum einkennandi bláan lit. 

Meginstef sýningarinnar er heimþrá en myndirnar sýna tilfinningatengsl höfundar við heimalandið Ísland og eru fullar af ljúfsárum söknuði. Myndefnið er bæði áþreifanlegt og táknrænt í senn: Kröftugir fossar sem knýja vatnsaflsvirkjanir, lóan sem boðar komu vorsins eftir langan vetur og hvönn sem löngum hefur verið notuð sem lækningajurt. Í myndunum kallast hið hversdagslega á við ljóðræna sýn á landið.

Inga Lísa vinnur myndirnar sínar með aðferð sem nefnist á ensku Cyanotype. Aðferðin var þróuð á 19. öld og var lengi vel notuð til að fjölfalda prentefni. Heitið vísar til bláa litarins, cyan sem er einkennandi fyrir myndirnar.

Inga Lísa Middleton er ljósmyndari að mennt, búsett í Bretlandi.Inga Lísa Middleton er með BA gráðu í ljósmyndun frá University for the Creative Arts í Surrey og MA gráðu í ljósmyndun frá The Royal College of Art í London. Hún hefur tekið ljósmyndir fyrir auglýsingar og tímarit, myndskreytt bækur, unnið sem ljósmyndari í bíómyndum og tekið portrett ljósmyndir. Inga Lísa hefur einnig skrifað, leikstýrt og framleitt sjónvarpsþætti, stuttmyndir, auglýsingar og myndbönd.

Inga Lísa hefur sýnt í Norræna húsinu, sendiráði Íslands í London og fram í júlí á þessu ári stendur yfir sýning á verkum hennar í Sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Inga Lísa hefur einnig tekið þátt í samsýningum í The Mall Galleries og í  Southbank Centre í London, Englandi, Gallery North og Herstmonceux Castle í East Sussex, Englandi, auk nokkurra alþjóðlegra samsýninga.

Myndir Ingu Lísu Middleton verða sýndar á Vegg í Þjóðminjasafni Íslands.  

https://ingalisamiddleton.wordpress.com/