Eldri sýningar

Stoppað í fat

  • 29.1.2011 - 18.9.2011, Hornið - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Sýning á viðgerðum munum úr safneign. Á sýningunni má sjá fjölbreyttar viðgerðir á fatnaði, vefnaðarvöru, heimilisáhöldum og verkfærum frá ýmsum tímum. Í tengslum við sýninguna hefur verið send út spurningaskrá um viðgerðir og endurnýtingu á heimilum í dag.

Áður fyrr var mikið gert af því á íslenskum heimilum að endurnýta og gera við fatnað, húsbúnað, heimilisáhöld og verkfæri. Í nægtaþjóðfélagi nútímans eru æ fleiri hlutir einnota og einfaldlega hent eftir skamma notkun. Á allra síðustu árum hefur þó orðið viðhorfsbreyting hjá almenningi hvað varðar að  endurnýta og lagfæra. Bæði ráða þar umhverfissjónarmið og einnig er núverandi þjóðfélagsástand þannig, að almenningur þarf að sýna meiri aðhaldssemi í daglegu lífi.

Elsti gripurinn, pottbrot, er talinn vera frá því um landnámsöld en sá yngsti frá því um miðbik síðustu aldar. Margar af þessum viðgerðum frá fyrri tíð bera vitni um fjölbreytta verkþekkingu, hugmyndaflug og verksvit sem áhugavert er að kynnast.

Þjóðminjasafn Íslands vinnur að söfnun heimilda um heimatilbúið, viðgert og notað. Því var í tengslum við sýninguna send út spurningaskrá til að kanna hvort og í hvaða mæli fólk gerir við búshluti, fatnað eða annað heima hjá sér, hvað það býr til sjálft og hversu mikið það notar hlutina eða endurnýtir. Öllum áhugasömum er velkomið að taka þátt í rannsókninni.