Eldri sýningar

Þrælkun, þroski, þrá?

  • 21.2.2009 - 6.9.2009, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Sýning á ljósmyndum úr Ljósmyndasafni Íslands af ungum börnum við fiskvinnu ýmist á sjó eða landi á árunum 1930-1950.

Sýningin Þrælkun, þroski, þrá? fjallar um börn við vinnu á sjó og í landi. Hún vekur upp spurningar um vinnumenningu og barnauppeldi á Íslandi á 20. öld. Á sýningunni er fjallað um hvernig ljósmyndir geta breytt viðhorfi okkar til fortíðarinnar eftir því samhengi sem þær eru skoðaðar í.

Ljósmyndunum er ætlað að opna umræðu og hvetja fólk til að skoða fortíðina í nýju samhengi. Þær vekja upp spurningar er varða viðhorf til barnavinnu, aðbúnað og vinnuskilyrði barna og samskipti sjómanna og barna.

Hvenær breytast ævintýri og heilbrigð vinnumenning í þrælkun? Hvenær verða aðstæðurnar óyfirstíganlegar fyrir lítil börn, líkamlega og tilfinningalega? Hvar liggja mörkin?

Sýningin Þrælkun, þroski, þrá? byggir á stærri rannsókn sem Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur vann í rannsóknarstöðu dr. Kristjáns Eldjárns við Þjóðminjasafn Íslands.

Í tengslum við sýninguna gefur Þjóðminjasafnið út bókina Afturgöngur og afskipti af sannleikanum en í henni er fjallað um ljósmyndir sem menningarlegt greiningartæki og skoðað hvernig ljósmyndir móta sjálfsmynd, gildismat og viðhorf einstaklinga og þjóða. Ljósmyndir móta viðhorf okkar til veruleikans, sannleikans og einstakra atburða í fortíð og nútíð.

Í bókinni er fjallað um ljósmyndir sem menningarlegt greiningartæki og skoðað hvernig ljósmyndir móta sjálfsmynd einstaklinga, fjölskyldualbúm þjóða og viðhorf til dauðans. Ljósmyndir eftir íslenska samtímaljósmyndara eru settar í alþjóðlegt samhengi og fjallað um óljós mörk milli heimildaljósmyndunar og skapandi ljósmyndunar. Texti bókarinnar er bæði persónulegur og aðgengilegur en um leið er um að ræða fræðilega greiningu sem byggir á helstu kenningum í ljósmyndafræði samtímans.