Viðburðir framundan

Hádegisfyrirlestur: Af reiðskapnum skal riddarann kenna

Lilja Árnadóttir sýningarhöfundur Prýðilegra reiðtygja

Þriðjudaginn 8. maí kl. 12 flytur Lilja Árnadóttir, sviðsstjóri munasafns, erindi í tengslum við sýninguna Prýðileg reiðtygi sem stendur nú yfir í Bogasal. Þar er úrval söðla frá 18. – 20. öld, íburðarmikið söðulskraut og reiðar, auk söðuláklæða. 

Lilja ætlar að fjalla um fjölbreyttan safnkost í Þjóðminjasafn Íslands sem tengist íslenska hestinum. Varðveittir eru margir gripir sem vitna um notkun hesta í bjargræðis- og atvinnuskyni að viðbættum listilega unnum reiðtygjum og búnaði sem notaður var til prýði. Reiðtygi af því tagi hljóta að hafa verið í eigu efnafólks. Hesturinn hefur réttilega verið nefndur þarfasti þjónninn og gegndi mikilvægu hlutverki í lífi og afkomu þjóðarinnar. Í dag er hestamennska stunduð bæði sem atvinnugrein og frístundaiðja.  

Fyrirlesturinn er sjöundi í röð hádegisfyrirlestra Þjóðminjasafnsins vor 2018 og er skipulagður í tengslum við sýninguna Prýðileg reiðtygi.  

Á sýningunni Prýðileg reiðtygi er úrval skreyttra söðla, söðulreiða og söðuláklæða úr safneign Þjóðminjasafns Íslands. Knapar lögðu upp úr því að reiðtygi væru skrautleg og til prýði. Skreyttur söðull með viðeigandi búnaði var verðmæt eign. Á fyrri öldum sátu konur í kvensöðli með báða fætur öðrum megin; þær riðu kvenveg. Karlar riðu klofvega í sínum söðli. 

Á mynd með færslu er reiðakúla eða reiðaskjöldur frá 17. öld úr látúni. Á jaðrinum stendur RIDTV VARLEGA DRECKTV SPARLEGA DAVDINN KEMVR SNARLIGA (Ríddu varlega, drekktu sparlega, dauðinn kemur snarlega). Þjms. 6655