Viðburðir framundan

List án landamæra - opnun

Fígúrur Atla Más Indriðasonar

Opnun sýningarinnar Fígúrur, 7. maí kl. 16.00 í Þjóðminjasafni Íslands.
Verk Atla Más eru litrík og skrautleg og einkennast af persónum og fígúrum úr bíómyndum, ævintýrum, teiknimyndum eða leikritum.

Atli Már Indriðason fæddist árið 1993. Hann útskrifaðist úr diplómanámi Myndlistaskólans í Reykjavík vorið 2017 og hefur sótt vinnustofur í myndlist við sama skóla frá árinu 2013. 
Atli Már er afkastamikill listamaður, hann eyðir megninu af frítíma sínum að teikna í skissubækurnar sínar og eftir hann liggur fjöldinn allur af listaverkum. Túlkun hans er sérstök og hefur hann sinn eigin stíl sem hefur þróast í gegnum árin. Allt frá unga aldri hefur Atli Már verið mjög listrænn og sem barn hlustaði hann mikið á tónlist og söng yfirleitt með hástöfum. Hann horfði mikið á bíómyndir og yfirleitt gat hann ekki setið kyrr og horft heldur þurfti að klæða sig upp í búninga og taka fullan þátt í atburðarásinni með söng og dans. Þennan áhuga má skýrt sjá í verkum Atla Más og alla jafna, þegar hann útskýrir verkin fyrir áhorfendum, lifir hann sig inn í þau, rétt eins og bíómyndirnar.

Sýningin Atli Már - Fígúrúr er hluti af List án landamæra árið 2018. List án landamæra leggur áherslu á fjölbreytileika mannlífsins og var fyrst haldin árið 2003. Hátíðin fer fram um land allt og hefur vaxið og dafnað síðastliðin ár. Markmið hátíðarinnar er að auka gæði, gleði, aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í menningarlífinu. Hátíðin hefur stuðlað að samstarfi á milli fatlaðra og ófatlaðra listamanna. Þannig er unnið þvert á ósýnileg landamæri. Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á www.listin.is.