Eldri fyrirlestrar Þjóðminjasafns

Hádegisfyrirlestur Þjóðminjasafns Íslands. Fyrsti íslenski fuglaljósmyndarinn

12.9.2017

Þriðjudaginn 12. september kl. 12 flytur Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands erindi um fyrsta íslenska fuglaljósmyndarann.

Björn Björnsson, kaupmaður á Norðfirði var reynslumikill ljósmyndari þegar hann, fyrstur Íslendinga hóf að mynda fugla af alvöru í kringum 1940. Hann helgaði sig þessari iðju næsta aldarfjórðunginn og náði ágætum myndum af flestum íslenskum varpfuglum. Björn var jafnframt mikill fuglaverndarmaður og bar hag arnarins sérstaklega fyrir brjósti. Í fyrirlestrinum verður brugðið upp úrvali af fuglamyndum sem hann ánafnaði Náttúrufræðistofnun Íslands eftir sinn dag, sagt frá aðferðum Björns við myndatökurnar og gerð grein fyrir þýðingu þeirra í almannafræðslu og fuglavernd þess tíma.
Fyrirlesturinn er fyrsti í röð hádegisfyrirlestra Þjóðminjasafnsins haustið 2017. Allir velkomnir og ókeypis aðgangur.

https://youtu.be/6PAsXQdZOBY