Eldri fyrirlestrar Þjóðminjasafns

Sýning verður til: Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi

  • 23.5.2017 Anna Lísa Rúnarsdóttir

Þriðjudaginn 23. maí kl. 12 flytur Anna Lísa Rúnarsdóttir erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Anna Lísa fjallar um tilurð sýningarinnar Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi sem nú stendur yfir í Bogasal.

Það er áskorun fólgin í því að taka fyrir viðfangsefni á borð við þverþjóðleika, kynþáttahyggju og fordóma í sýningu. Að flétta saman niðurstöðum fjölbreyttra rannsókna fræðimanna og miðla til gesta. Í erindinu verður sagt frá því ferli sem fór fram frá hugmynd að fullmótaðri sýningu, þeim áherslum sem valdar voru og álitamálum sem komu upp. Lagt var upp með að skapa tilefni til umræðu um búferlaflutninga og hvernig samfélagið okkar hefur mótast af flutningum fólks og hugmynda milli landa. Gefst hér tækifæri til að fá innsýn í safnastarfið og taka þátt í samtali um þessi mál.

Anna Lísa Rúnarsdóttir lauk doktorsprófi í mannfræði frá University College London árið 2004 og starfar nú sem sviðstjóri rannsókna- og þróunarsviðs á Þjóðminjasafni Íslands.Fyrirlesturinn er áttundi í röð hádegisfyrirlestra Þjóðminjasafnsins og er skipulagður í tengslum við sýninguna Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi.