Fyrirlestrar

Mannfækkun af mannavöldum

Dauðadómar og aftökur hérlendis á árnýöld

Þriðjudaginn 5. febrúar kl. 12 flytur Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Siðaskiptin mörkuðu upphaf áður óþekktrar hrinu dauðarefsinga í N-Evrópu en þá færðist vald til refsinga frá kirkjulegum yfirvöldum til veraldlegra valdahafa. Hvers kyns samfélagslegar umbætur voru samhliða settar á oddinn. Tekið var af mikilli hörku á siðferðisbrotum en einnig því sem skilgreint var sem leti og flakk með tilheyrandi þjófnaði. Samtals var nærri 240 dauðadómum framfylgt í fimm brotaflokkum hérlendis frá 1550 til 1830, þ.e. fyrir morð, dulsmál, blóðskömm, galdra og loks þjófnað. Dauðarefsingum var þó tiltölulega sjaldan beitt hérlendis fyrr en undir lok 16. aldar og urðu aftökur eftir það nær árlegur viðburður í tvær aldir. Áberandi margir eru dauðadómar fyrir þjófnað en allt í allt voru 75 þjófar teknir af lífi á Íslandi á aðeins á 174 árum, sá fyrsti árið 1584 en síðasti árið 1758. Í fyrirlestrinum verða kynntar fyrstu niðurstöður nýhafinnar fornleifarannsóknar á dauðadómum og aftökum hérlendis á árnýöld. Lögð verður sérstök áhersla á að rýna í stöðu dauðadæmdra og vanmátt þeirra gagnvart yfirvöldum.

Verið öll velkomin.

Myndina tók Kristinn Ingvarsson.