Grunnsýning
  • Sýningarskápur með Þórslíkneskinu, lykilgrip tímabilsins 800-1000

Þjóð verður til

Menning og samfélag í 1200 ár

Grunnsýningu Þjóðminjasafnsins er ætlað að hvetja gesti til að spyrja grundvallarspurninga um þjóðina sem byggt hefur Ísland til þessa dags. Hún felur í sér túlkun og endurmat samtímans á Íslandssögunni og um leið á því hver við erum.

Á sýningunni er leitast við að draga upp skýra og heillega mynd af menningarsögu Íslendinga. Gripir safnsins eru settir í sögulegt samhengi þar sem tekið er mið af nýjustu rannsóknum. Helstu nýjungum í sýningargerð er beitt til að miðla gestum fjölbreyttum menningararfi þjóðarinnar.

Uppbygging sýningarinnar
Saga þjóðarinnar er rakin í tímaröð frá landnámi til dagsins í dag. Sögunni er skipt nokkuð jafnt í sjö tímabil og þannig er varpað ljósi á þau skeið sem í hefðbundinni sögutúlkun hafa gjarnan fallið í skuggann af þeim glæstari. Þetta er ólíkt þeirri kaflaskiptingu sögunnar sem er algengust og byggir á stjórnskipunarlegum og trúarlegum vatnaskilum.

Hvert tímabil er auðkennt með sérstökum skáp, sem sýnir lykilgrip og gefur örstutt yfirlit um helstu einkenni tímans. Fyrir hvert tímabil eru valdir atburðir eða merkar nýjungar sem markað hafa spor í þjóðarsöguna en einnig er bent á þætti í sögunni sem lítið breytast um aldir. Saman mynda þessir atburðir sögu hvers tímabils sem sýnd er með gripum.

Önnur sjónarhorn eru einnig möguleg á sýningunni. Hægt er að rekja sig í gegnum hana eftir fjórum leiðarþráðum og hlusta á raddir fyrri alda í hljóðstöðvum. Gagnvirkt margmiðlunarefni á snertiskjáum gefur aukna dýpt og í fræðslumöppunum Komdu og sjáðu...  geta gestir kynnt sér ýmis efni tengd tímabilinu í máli og myndum. Í herbergjum helguðum skemmtimenntun má snerta gripi og klæðast búningum.

Grunnsýning Þjóðminjasafnsins einkennist af fjölbreyttri notkun miðla. Gripir og saga mismunandi tímabila kalla á ólíka framsetningu og tilgangurinn er því ekki aðeins að koma til móts við ólíkar þarfir sýningargesta.

Sýningin er hugsuð sem ferðalag í gegnum tímann sem hefst í knerri landnámsmanns sem sigldi yfir opið haf til nýrra heima og lýkur í flughöfn nútímans, hliði Íslendinga að umheiminum.

Erill 21. aldarinnar er tákngerður með færibandi, flæði upplýsinga úr öllum áttum og gnægð lífsgæða. Eftir för um Íslandssöguna alla er gott að rifja upp ferðalagið á leið niður bogagöngin... aftur í tímann.


Fróðleikur

Þjóð verður til

Grunnsýningu Þjóðminjasafnsins er ætlað að hvetja gesti til að spyrja grundvallarspurninga um þjóðina sem byggt hefur Ísland til þessa dags. Hún felur í sér túlkun og endurmat samtímans á Íslandssögunni og um leið á því hver við erum.

Lesa meira


Póstlisti Þjóðminjasafnsins

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.