Fréttir
  • Markús Þór Andrésson

Markús Þór Andrésson sýningarstjóri nýrrar grunnsýningar í Safnahúsinu

Safnahúsið lokað þar til haustið 2014

Markús Þór Andrésson hefur verið ráðinn sýningarstjóri nýrrar grunnsýningar Safnahúsinu við Hverfisgötu. Á sýningunni verður fjallað um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf en að sýningunni standa höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands, ásamt Þjóðskjalasafni Íslands, Landsbókasafni- Háskólabókasafni og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sérfræðingar þessara stofnana munu vinna með sýningarstjóra að mótun grunnhugmyndar. Verkefnið er unnið undir yfirstjórn þjóðminjavarðar og gert er ráð fyrir að sýningin verði opnuð á miðju ári 2014.

Markús Þór Andrésson (f. 1975) er menntaður í sýningarstjórn frá Center for Curatorial Studies, Bard College í Bandaríkjunum. Áður nam hann listsköpun við Listaháskóla Íslands. Hann starfar sjálfstætt sem sýningarstjóri, textasmiður og leikstjóri heimildarmynda og sjónvarpsþátta um myndlist. Af nýlegum sýningarverkefnum Markúsar Þórs má nefna Sequences listahátíðina, 2013; Tómið í Listasafni Árnesinga, 2012; Momentum tvíæringinn í Noregi 2011; Án áfangastaðar í Listasafni Reykjavíkur, 2011; og The End í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum. Hann hefur reglulega skrifað um myndlist í tímarit og sýningarskrár og gert sjónvarpsþætti um myndlist á Listahátíð í Reykjavík undanfarin tvö ár. Með framleiðslufyrirtæki sínu, Lófa, vinnur hann ásamt fleirum að gerð kvikmyndar sem byggir á verkum listamannsins Hreins Friðfinnssonar. Markús Þór situr í stjórnum Listaháskóla íslands og Listfræðafélags Íslands sem og í Innkaupanefnd Listasafns Íslands.Póstlisti Þjóðminjasafnsins

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.