prjónles

Prjónles

Lýsið helsta prjónlesi áður fyrr, gerð, nöfnum á stykkjum og hlutum þeirra, litum, garni, snúningum, munstri, hreinsun, notkun (hvað var t.d. sérstaklega prjónað á sjómenn) o.fl. Hér fyrir neðan eru atriði til að styðjast við þegar rifjað er upp:
Hvað nefnist efsti hluti sokks, vettlings og neðst á peysum, framan á ermum og í hálsmáli (brugðningar, laski, snúningar, stroff, fit t.d.)? Hvernig voru brugðningar prjónaðir á sokka (kvensokka, karlmannasokka, ullarleista, hæð t.d.), ein slétt og ein brugðin, tvær sléttar og tvær brugðnar eða á annan hátt? Svarið sömu spurningum um vettlinga og peysur.
Voru spottarnir sem prjónaðir voru í og raktir úr fyrir þumal (og stundum fyrir hæl eða framleist) nefndir sérstökum nöfnum?
Hvernig voru prjónaflíkur þæfðar og pressaðar? Var allt prjónles þæft?

Sokkar. Nefndu nöfn á mismunandi sokkum og lýstu gerð þeirra (leistar, hosur, sportsokkar, uppháir sokkar, hálfsokkar, fínir kvensokkar, sjónvarpssokkar)? Hvernig voru hælar handprjónaðir og/eða vélprjónaðir? Voru mismunandi nöfn á hælum (Halldóruhæll, franskur hæll, húfuhæll, mælingarhælstallur) og úrtökum (stjörnuúrtaka t.d.) á sokkum? Voru notuð sokkatré?

Illeppar. Hvernig leppar voru algengir og hvað voru þeir kallaðir (íleppar, illeppar, rósaleppar, spjarir, barðar, slyngdir leppar t.d.). Lýstu rósaleppaprjóni t.d. mismun á því og venjulegu tvíbönduðu munsturprjóni. Hvað hétu munstur í rósaleppum og hvernig voru þau? Var algengt að börn prjónuðu leppa? Hvað kölluðust einstakir hlutar leppa (miðja, totur t.d.) og hvernig voru þeir bryddir og fóðraðir?

Vettlingar. Nefndu mismunandi nöfn á vettlingum og lýstu einkennum þeirra? (belg-, fingra-, spröku-, rósa-, sjó-, hrífuvettlingar, stuðlabrugðnir vettlingar, tvíþumla vettlingar). Segið frá hlutum vettlings (fit, snúningur, klukka, gripi, úrtökur t.d.). Var talað um að sjóvettlingar væru misjafnlega fiskisælir? Heyrðu menn um "dregna" vettlinga, "róna" vettlinga, eða að vettlingar "hlypu í dróma" þegar þeir voru orðnir mjög þófnir? Kannast menn við að kross væri hafður í vettlingamunstri til heilla (t.d. fyrir sjómenn)?

Handstúkur (smokkar, perlusmokkar). Hverjir notuðu þær helst og við hvaða tækifæri?

Treflar (prjóngerð, lengd, breidd, litur, nöfn). Kannast menn við trefla sem kölluðust "net"? Hvernig voru þeir prjónaðir? En "plet"? Hvernig og hvenær voru þau notuð og kannast menn við orðtakið "að pleta sig"?

Sjöl, hyrnur, þríhyrnur (langsjöl, skakkar, hálfskákir). Hvernig voru þau notuð? Hvernig var gert utan um þau (kögrað, heklað t.d.)? Hvar og hvenær sáust fyrst útprjónaðar hyrnur og sjöl? En tvöfaldar hyrnur? Segið frá útprjóni á hyrnum og sjölum?

Peysur, treyjur, vesti (lopapeysur, duggarapeysur, karlmannspeysur, vestispeysur, kvenpeysur, golftreyjur). Litir, sídd, útprjón, tölur, kragi, vasar, ermar. Þekktust brjóstadúkar? Hvernig voru þeir? Voru peysur almennt handprjónaðar? Var mikið um útaukningu og úrtökur á peysum áður fyrr, þannig að þær legðust betur að líkamanum? Hvað nefndust hlutar peysu? Gengu eldri konur oft í hlífðarpeysum (golftreyjum)? Hvenær heyrðist fyrst orðið "golftreyja"? Hvernig voru fyrstu lopapeysurnar? Hvenær fóru að tíðkast munstur með hringlaga axlabekkjum? Hvernig er "alsnúin peysa" prjónuð?

Úlpur, húfur (skotthúfur karla og kvenna, hettur, lambhúshettur, Mývatnshettur, húfur m. áföstum trefli, hattar, hólkar, strokkar). Litur, prjóngerð, munstur, úrtökur. Voru prjónaðar úlpur algengar? Lýsið skotthúfum karla, lögun og lit. Var stundum byrjað á prjónahúfum í hvirfli? Hvernig voru þær að öðru leyti? Voru prjónaðar sérstakar húfur undir sjóhatta? Hvernig voru þær í laginu? Þekkja menn til kvenna sem tóku að sér að prjóna skotthúfur við íslenskan búning? Nefnið nöfn og aldur.

Nærfatnaður (bolir, prjónabrækur, prjónaklukkur, kot, læraskjól, ganhöld, föðurland, skothöld). Lýsið ullarnærfatnaði kvenna, karla og barna. Hvenær lagðist af almenn notkun ullarnærfata þar sem menn þekkja til?

Buxur (stuttar, síðar, hnébuxur t.d.). Hversu algengar voru prjónabuxur og hverjir gengu helst í þeim?

Slifsi (notkun, lögun, litir). Þekktust prjónuð slifsi við peysubúning? Hvernig voru þau prjónuð?

Tátiljur (úr lopa eða öðru t.d.).

Axlabönd, ermabönd, belti, sokkabönd (prjóngerð, frágangur, hnappagöt, tölur, sylgjur, festingar).

Ungbarnaföt (tíska, litir t.d.). Hvað prjónuðu verðandi mæður helst? Segið frá dæmigerðum prjónuðum sængurgjöfum.

Pyngjur (litur, lögun, frágangur, loka, umbúnaður til að hengja á belti).

Ábreiður, mottur. Þekktust prjónaðar rúmábreiður og mottur? Hvernig voru þær prjónaðar?

Rúmföt (koddaver, lök, sængurver, bönd, munstur). Þekktust handprjónuð eða vélprjónuð rúmföt? Hvaða efni var notað í þau (handspunnið ullarband, vélspunnið ullarband, bómullargarn)?

Sessuborð (munstur, litir, bak).

Dúkar (heilprjónaðir - hvar þá byrjað? -, tiglar, samsetning, frágangur, að strekkja og stífa dúka).

Pottaleppar, handklæði, þvottapokar, bekkjatuskur.
Mjólkursíur, skyrsíur, ostapokar (efni og aðferð, lögun, notkun, hreinsun).

Kirkjutextílar (korpóralshús, höklar, altarisdúkar eða brúnir t.d.). Ef menn hafa spurnir af prjónuðum kirkjutextílum eru þeir beðnir að lýsa þeim og segja frá því hvar þeir voru (eru) og hverjir gerðu þá.

Póstlisti Þjóðminjasafnsins

Skráning á póstlista.

Ath. Nauðsynlegt er að fylla út þá reiti sem merktir eru með *.