Listi yfir hús í safninu
  • Núpsstaður

Bænhús á Núpsstað

  • Bænahúsið er ekki opið almenningi.

Núpsstaður er austasti bær í Fljótshverfi, skammt vestan við Lómagnúp. Húsið er lokað almenningi.

Núpsstaður

Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju. 

Bænhúsið á Núpsstað er torfhús, talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Þilverk hússins er eignað Nikulási Jónssyni trésmið (1831-1920) og er líklegt að húsið sé nokkru minna en það sem áður stóð þar. Bænhúsið er 5,2 metrar á lengd og 2,2-2,5 metrar á breidd, breiðast við kórstafninn. Langveggir eru allt að 2,5 metrar á þykkt, hlaðnir úr grjóti og torfi. Austurgafl er hlaðinn til hálfs, en hálfþil að ofan með litlum fjögurrarúðu glugga. Á vesturstafni er alþil og yfir hurð er tveggjarúðu gluggi. Þil eru svartbikuð og torfþekja á húsinu. Húsið var notað m.a. sem skemma um tíma, en gekk þó jafnan undir nafninu bænhús. Þjóðminjavörður friðlýsti bænhúsið árið 1930, fyrst húsa á landinu. Gert var rækilega við það á vegum Þjóðminjasafnsins á árunum 1958-60 og var það tekið til kirkjulegra nota með messu 3. september 1961.

NúpsstaðurBænhúsið er hluti af merkri bæjarheild á staðnum. Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar er að finna hér