Miðlun

Miðlun

Hlutverk miðlunarsviðs er að hafa umsjón með fræðslu og miðlun á menningartengdu efni. Sérfræðingar sviðsins sjá meðal annars um fræðslu fyrir skólahópa, leiðsagnir, skipulagningu viðburða, sýningagerð, upplýsingagjöf, umsjón með vef- og samfélagsmiðlum, kynningarmál og útgáfu. Á miðlunarsviði starfa auk sviðsstjóra safnfræðslufulltrúar, verkefnastjóri sýninga og kynningarstjóri. 

Miðlunarsvið Þjóðminjasafns Íslands hefur umsjón með safnfræðslu, sýningum, kynningarmálum og útgáfu safnsins. Safnkennarar sjá um gerð fræðsluefnis, kynningar og leiðsagnir fyrir fjölbreytta hópa samfélagsins en rík áhersla er lögð á aðgengi fyrir alla í safninu. Nemendum á öllum skólastigum er boðið upp á fræðslu og leiðsögn. Einnig er tekið á móti öðrum sérhópum og eru þá leiðsagnir og fræðsla sniðin að þörfum hvers og eins. Má þar nefna leiðsögn fyrir blinda, táknmálsleiðsögn og minningavinnu með eldri borgurum. Tekið er á móti skólahópum og öðrum sérhópum á Suðurgötu og  á Hverfisgötu. 

Miðlunarsvið ber ábyrgð á skipulagningu viðburða í tengslum við starfsemi safnsins. Árlegir viðburðir eru t.d. Safnanótt, sumardagurinn fyrsti, 17. júní, Menningarnótt og heimsókn jólasveinanna fyrir jólin. Aðrir viðburðir sem sviðið hefur umsjón með eru sýningaropnanir, bókakynningar, hádegisfyrirlestrar, málþing og fjölskylduleiðsagnir.

Sýningar Þjóðminjasafns endurspegla rannsókna- og varðveislustarf safnsins. Verkefnastjóri sýninga hefur umsjón með viðhaldi og endurnýjun á grunnsýningu safnsins sem og mótun og umsjón með sérsýningum. Sérsýningar gefa almenningi innsýn í rannsóknir sem fara fram innan safnsins sem og að vera leið til að taka þátt í menningu og lífi samtímans.

Kynningarstefna Þjóðminjasafnsins er að gæta hagsmuna og sýnileika safnsins á öllum verksviðum, bæði hvað varðar innra og ytra starf. Kynningarstjóri ber ábyrgð á samskiptum við fjölmiðla, gerð fréttatilkynninga, umsjón með heimasíðu og samfélagsmiðlum, auglýsingagerð, gerð kynningarefnis og að svara fyrirspurnum almennings.

Hlutverk miðlunarsviðs er einnig að halda utan um og hafa umsjón með útgáfu safnsins. Niðurstöður rannsókna sem endurspegla starf safnsins eru gefnar út í formi fræðibóka, skýrslna, sýningaskráa eða annara rita eftir því sem við á. Undir útgáfu heyrir einnig kynningar-, fræðslu- og skemmtiefni. Skrifstofa miðlunarsviðs er í Setbergi, Suðurgötu 43