Skólahópar

Skipulagðar heimsóknir

Tekið er á móti skólahópum í leiðsögn og fræðslu í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu. Kennurum býðst einnig að fara á eigin vegum um sýningar með nemendur. Sjá nánari upplýsingar um fræðslu fyrir mismunandi skólastig hér til hægri. Netfang vegna safnfræðslu er kennsla@thjodminjasafn.is .

Safnkennarar Þjóðminjasafnsins sinna fræðslu fyrir skólahópa í Þjóðminjasafninu. Safnkennari tekur á móti hópnum í anddyri safnsins. Nemendur þurfa ekki að hafa neitt meðferðis í heimsóknina og best er að skilja töskur eftir í skólanum. Kennarar taka þátt í heimsókninni og eru starfsmönnum safnsins innan handar. Vinsamlega bókið ekki fyrir fleiri en 28 nemendur í einu nema að höfðu samráði við safnkennara. Hver heimsókn tekur allt að 60 mínútur. Kennarar eru hvattir til að undirbúa heimsóknina vel svo hún gagnist skólastarfinu sem best. Hér til hægri er dagskrá fyrir mismunandi skólastig.

Safnkennarar vinna gjarnan með kennurum að heimsókn sem mætir áhuga og þörfum nemendanna miðað við það efni sem er til umfjöllunar í skólunum hverju sinni. Endilega hafið samband í gegnum kennsla@thjodminjasafn.is til þess að efna til samvinnu við safnkennara um nýtingu nemenda á safnkosti, sýningum og safnfræðslu.

Nýjung: Fjarheimsókn!

Vegna ýmissa aðstæðna sem kunna að hafa áhrif á vettvangsferðir með nemendur bjóðum við nú skólahópum að koma í fjarheimsókn í Þjóðminjasafnið. Þetta fyrirkomulag er jafnframt einstakt tækifæri fyrir nemendur á landsbyggðinni til að „koma“ í heimsókn og fræðast með safnkennurum.

Fjarheimsóknir fara fram í gegnum forritið Teams þar sem við sjáumst og heyrumst í gegnum skjá. Safnkennarar sjá um skoðun og fræðslu og leitast við að svara spurningum nemenda. Hafið samband í gegnum kennsla@thjodminjasafn.is til þess að bóka fjarheimsókn.

Bókanir

Bókið heimsókn í Þjóðminjasafnið við Suðurgötu með góðum fyrirvara. Í bókuninni þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram: Nafn skólans, árgangur, fjöldi nemenda í bekk og fjöldi kennara, símanúmer, óskir um dagsetningu og tíma, sérþarfir nemenda og önnur atriði sem koma sér vel fyrir safnkennara að vita af. Öll fræðsla fyrir skólahópa er ókeypis. Tekið er á móti þeim í Þjóðminjasafninu á virkum dögum frá kl. 8 til 16, og á öðrum tímum verði því komið við. Hópar á eigin vegum koma á tímabilinu frá kl. 10 til 17 þegar sýningar eru opnar.

Bókun fyrir leik- og grunnskólahópa í heimsókn í Þjóðminjasafnið fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.

Boka-heimsokn

Bókun fyrir aðra skólahópa og fjarheimsóknir: Sendið tölvupóst á kennsla@thjodminjasafn.is eða hringið í síma 530 2254 eða 530 2255.