Grunnskólar

3.-4. bekkur - Tíminn og skórnir: Safngripir í aldanna rás

  • 23.08.2018 - 15.06.2018 Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Í heimsókninni er áhersla lögð á að kenna nemendum á grunnsýningu safnsins svo þeir geti auðveldlega heimsótt safnið á eigin vegum síðar meir. Á grunnsýningunni er sagan sögð í tímaröð og gegnir tíminn miklu hlutverki í heimsókninni. 

 

Markmið

 

  • Að nemendur velti fyrir sér ástæðum þess að hlutir, t. d. fatnaður eða verkfæri, taka breytingum.
  • Að nemendur reki sig í gegnum grunnsýningu safnsins út frá skófatnaði sem á henni er.
  • Að nemendur þjálfist í að nota tímaás sem verkfæri til að skilja þróun.

 

 

Fyrirkomulag heimsóknar:

 

Nemendur hengja upp útifatnað í fatahengi í kjallara og setjast á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður þá velkomna. Hann kynnir dagskrá heimsóknarinnar og fer yfir þær reglur sem gilda á safni. Safnkennari leiðir nemendur um grunnsýningu safnsins með  skófatnað frá mismunandi tímabilum sem leiðarstef. Skoðaðir eru ýmsir aðrir áhugaverðir gripir úr fortíðinni sem nemendur geta tengt við sinn raunheim. Staldrað er við teiknaðan tímaás þar sem framvinda sýningarinnar og þróun samfélagsins er skoðuð myndrænt.

Heimsóknin tekur um klukkustund.

Vinsamlegast sendið beiðni um bókun á netfangið kennsla@thjodminjasafn.is eða hafið samband í síma 5302254 eða 5302255.