Grunnskólar

5.-6. bekkur - Í spor landnámsfólksins: Upphaf Íslandsbyggðar

Í heimsókninni er fjallað um landnámið og skoðaðar fornleifar frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi. Þjóðminjasafnið nýtur þeirrar sérstöðu skv. lögum að bera ábyrgð á varðveislu allra jarðfundinna gripa. Nemendur klæðast fatnaði í stíl landnámstíma á meðan á heimsókninni stendur. 

Markmið: 

  • Að nemendur þekki gripi og fornleifar sem varðveist hafa frá landnámsöld.
  • Að nemendur geti sett sig í spor landnámsfólksins.
  • Að nemendur öðlist skynbragð á trú og siði fyrir kristnitöku. 
  • Að nemendur fái tilfinningu fyrir sögulegum minjum og frumheimildum af ólíku tagi.

 Fyrirkomulag heimsóknar:

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Nemendur hengja upp útifatnað í fatahengi í kjallara og setjast á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður þá velkomna. Hann kynnir dagskrá heimsóknarinnar og fer yfir þær reglur sem gilda á safni. Gengið er upp í landnámshluta grunnsýningar safnsins þar sem safnkennari ræðir landnámið og það sem einkenndi þetta tímabil í sögunni. Eftirgerðir af gripum frá tímabilinu eru látnar ganga og nemendur klæðast búningum landnámstímans. Gripir þessa hluta sýningarinnar eru skoðaðir með safnkennara. Kennurum gefst tækifæri til að taka hópmynd af bekknum í tröppunum við innganginn að sýningunni.

Heimsóknin tekur um 1 klst.

Bókun skólahópa í leiðsögn í Þjóðminjasafninu á Suðurgötu fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.