Jólasiðir
  • Aðventukrans

Aðventuljós og kransar

Miðað við útbreiðslu aðventuljósa hér á landi mætti ætla að hér sé það aldagamall siður að setja sjö ljósa píramíta út í glugga á aðventunni. Þegar líða fer að jólum má sjá þessi aðventuljós í gluggum nánast hvers einasta húss í landinu og virðast þau vera með vinsælasta jólaskrauti sem hægt er að fá.

Því fer hins vegar fjarri að um gamlan sið sé að ræða en aðventuljósin bárust hingað frá Svíþjóð árið 1964. Íslenskur kaupsýslumaður að nafni Gunnar Ásgeirsson var þá í verslunarferð í Stokkhólmi og rakst á þessa nýjung þar og ákvað að gefa nokkrum gömlum frænkum sínum þessi ljós í jólagjöf. Aðventuljósin vöktu þvílíka lukku að Gunnar sá sér leik á borði og tók að flytja þau inn í stórum stíl og þarf ekki annað en að líta í glugga landsmanna fyrir jólin til þess að sjá hver árangurinn af þessum innflutningi varð.

Á fyrsta sunnudag í aðventu, sem er fjórði sunnudagur fyrir jól, er það orðin viðtekin venja hér á Íslandi að fólk setji upp svokallaða aðventukransa. Aðventukransarnir eru yfirleitt hringlaga og í þá eru sett fjögur kerti sem kveikt er á, einu í senn, fjóra síðustu sunnudagana fyrir jól. Oft eru aðventukransarnir ríkulega skreyttir, gjarnan með sígrænum greinum eða þvíumlíku og eru margir sem búa til sína eigin aðventukransa. Aðventukransarnir eru fremur nýjir af nálinni bæði hér á landi sem erlendis en uppruna þeirra má rekja til Norður-Þýskalands á fyrri hluta 19. aldar. Frá Þýskalandi bárust kransarnir norður á bóginn og við upphaf 20. aldar voru þeir orðnir þekktir í Danmörku. Í fyrstu var það þó aðeins í syðri héröðum Danmerkur því þeir urðu ekki algengir um allt landið fyrr en á hernámsárunum 1940-1945. Aðventukransar bárust fyrst til Íslands í kringum 1930 með fólki sem hafði kynnst þeim í Þýskalandi eða Danmörku en þeir urðu þó ekki almennir hér á landi fyrr en eftir seinni heimsstyrjöldina. Nú á dögum eru aðventukransar á flestum heimilum, skólum og vinnustöðum og þykir mörgum ómissandi þáttur í jólastemningunni að kveikja á einu kerti í senn síðustu fjóra sunnudagana fyrir jól við hátíðlega stund.

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.