Jólasiðir

Jólaboð og jólaskemmtanir

Á Íslandi hefjast jólin klukkan 18.00 á aðfangadagskvöld og þá þarf öllum undirbúningi að vera lokið. Margir byrja jólahátíðina á því að fara í messu en aðrir láta sér nægja að hefja jólaborðhaldið þegar kirkjuklukkurnar hafa hringt inn jólin.

 Hér á landi er venjan að nánustu fjölskyldur eyða aðfangadagskvöldi saman, borði dýrindismat og taki upp gjafir. Jólahátíðin er í hugum margra hátíð fjölskyldna, og þá einkum barna, og frá fyrstu tíð hefur það verið þannig að á jólunum eigi að vera hvíld fyrir alla á heimilinu frá amstri og vinnu hversdagsins. Þá er tækifærið notað og haldin eru jólaboð þar sem fjölskyldur og vinir koma saman til að borða góðan mat og eyða tíma saman. Í jólaboðunum er jafnvel tekið í spil eða farið í einhvers konar leiki en það hefur löngum einkennt jólin að þau eru sá tími öðrum fremri þar sem börnin eru sett í forgrunn og fullorðnir gefa sér tíma til að leika við þau og spila. 

Til eru heimildir um leiki allt frá 16. öld og má gera ráð fyrir að jólin hafi verið sá tími sem fólk gaf sér helst tíma til þess að leika og skemmta sér. Í þessu samhengi er bæði átt við spil og töfl, sem enn njóta gríðarlegra vinsælda um jólin meðal allra aldurshópa, en einnig eru til heimildir um eiginlega leiki eins og feluleiki, skollaleiki og fleira í þeim dúr. Þó er sjálfsagt misjafnt eftir einstaklingum og fjölskyldum hvort mikið er farið í leiki í jólaboðum og í hversu mörg jólaboð er yfirhöfuð farið. Sumir kunna best við sig í rólegheitum með góða bók í hönd eða með góða bíómynd á sjónvarspsskjánum og nýta jólafríið til þess að slaka á áður en nýtt ár og hversdagsamstrið tekur við að nýju.

Jolasveinn-a-jolaballiHvernig svo sem jólaboðum og leikjum er háttað hjá einstaklingum og innan einstakra fjölskyldna er vert að taka fram að fyrir jól og á milli jóla og nýárs eru haldnar gríðarlega margar skipulagðar jólaskemmtanir. Haldnar eru jólaskemmtanir í skólum og leikskólum, vinnustöðum, hjá félagasamtökum og víðar og á þessar skemmtanir geta þeir sem ekki fá nægju sína af fjöri í heimahúsum lagt leið sína. Sú venja hefur skapast í flestum barnaskólum landsins að halda „litlu jólin“ í síðustu skólavikunni fyrir jól og fá börnin þá að föndra, skreyta skólastofuna sína og jafnvel koma með kerti og eitthvert góðgæti í skólann. Í kjölfarið er síðan oftast haldin jólatrésskemmtun þar sem dansað er í kringum jólatréð. Líklegt þykir að Austurbæjarskóli hafi verið frumkvöðullinn að þessum jólaskemmtunum og fyrsta veturinn sem skólinn var starfræktur, árið 1930, var haldin jólaskemmtun með þessu sniði. Smátt og smátt fylgdu aðrir skólar landsins í kjölfarið og nú er þessi siður orðinn almennur í landinu.

Það eru þó ekki aðeins skólarnir og leikskólarnir í landinu sem halda jóltrésskemmtanir og jólaböll heldur einnig vinnustaðir, félagasamtök og fleiri. Fyrsta jólatrésskemmtun sem vitað er um að hafi verið haldin á Íslandi fór fram þann 28. desember 1876 en það var Thorvaldsensfélagið í Reykjavík sem stóð fyrir henni. Í kjölfarið fóru ýmis samtök einnig að bjóða upp á jólaböll milli jóla og nýárs og hefur þeim farið fjölgandi með árunum. Nú er svo komið að flest börn fara á nokkur jólaböll yfir jólahátíðina og þurfa jafnvel að velja og hafna úr þeim gríðarlega fjölda sem þeim býðst.

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.