Jólasiðir
  • Family

Jólaföt

Eins og minnst var á í köflunum um jólaköttinn og um jólagjafir var það viðtekin venja í gamla sveitasamfélaginu að húsbændur gæfu heimilsfólki sínu nýja flík og nýja sauðskinnsskó fyrir jólin. Var þetta gert til þess að verðlauna heimilisfólkið fyrir dugnað en verkin sem vinna þurfti fyrir jólin voru mörg og einkenndust vikurnar fyrir jól oft af mikilli vinnuhörku. 

Talað var um að þeir sem ekki fengu nýja spjör fyrir jólin „færu í jólaköttinn“ en það vildi enginn eiga á hættu, sama hvort þar væri átt við að jólakötturinn æti þá eða æti frá þeim matinn. Mikið kapp var því lagt á að klára alla tóvinnu og prjóna nýjar flíkur á heimilisfólkið áður en jólahátíðin gekk í garð. Í dag er orðasambandið „að fara í jólaköttinn“ enn notað um þá sem ekki fá nýja flík fyrir jól eða í jólagjöf og þykir mörgum mikilvægt að vera í nýjum klæðum frá toppi til táar, yst sem innst og helst einnig með nýklippt hár á aðfangadagskvöld. Hins vegar hefur það breyst frá því sem áður var þegar allur fatnaður var unninn heima og fara nú flestir í næstu tískufataverslun til þess að kaupa nýju jólafötin og jólaskóna þegar jólin nálgast.

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.