Jólasiðir

Jólahreingerning

Í dag gera flestir allsherjar jólahreingerningu fyrir jólin, þó það sé að sjálfsögðu misjafnt hversu rækileg mönnum þykir hún þurfa að vera. Sumir hreinsa alla skápa á heimilinu, þurrka af, þrífa húsgögn, þvo gardínur og dúka á meðan aðrir láta sér nægja að skipta á rúmum og hreinsa gólfin. Hvað svo sem mönnum finnst passlegt í þessum efnum vilja þó flestir að það sé hreint og fínt heima hjá þeim um jólin. Þegar heimilið hefur verið hreinsað hátt og lágt er síðan nauðsynlegt að fara í jólabaðið svo maður verði sjálfur hreinn og fínn áður en hægt er að skella sér í hreinu og fínu jólafötin. 

Jólahreingerningin er síður en svo ný af nálinni hér á landi og þótti það jafnmikilvægt hér áður að þrífa bæði híbýli, fatnað og kropp eins og nú þykir. Þó verður að hafa það í huga að þá hafði fólk ekki aðgang að öllum þeim hreinsiefnum og rennandi vatni sem við höfum nú og var hreingerningin því með nokkuð öðru sniði en nú gengur og gerist. Allan fatnað og rúmföt þurfti til að mynda að þvo í höndunum og var vaninn að gera það nokkrum dögum fyrir jól. Sá galli var hins vegar á því máli að margir áttu hvorki rúmföt né klæði til skiptanna og þurftu því að bíða í bælinu á meðan fötin og rúmfötin voru þvegin og þurrkuð. Menn biðu þá og vonuðu eftir þurrki, svokölluðum fátækraþerri, svo fötin yrðu fljótar þurr. Síðan þurfti að þrífa híbýlin og innanstokksmunina. Þá voru gólfin í bænum þvegin sem og allt tréverk. Trégólfin voru yfirleitt sandskúruð en moldargólf sópuð. Einnig þurfti að hreinsa öll matarílát og fægja hnífapör, sem og aðra málmhluti á heimilinu, en það var gert með ösku. Þegar því var lokið var svo kominn tími til að þrífa heimilismennina sjálfa og var þá sett heitt vatn, sem hitað var á hlóðunum, í bala og böðuðu heimilismenn sig ýmist í balanum eða þvoðu sér með einhvers konar þvottapoka hátt og lágt upp úr vatninu. Hafa ber þó í huga þegar fjallað er um jólahreingerningu á árum áður að sjálfsagt hefur það verið eins þá sem nú að misjafnt var eftir heimilum hversu rækilega bærinn var skrúbbaður og hversu vel menn þrifu kroppa sína.

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.