Jólasiðir

Jólaljós

Jólaljós voru lengi vel eina skreytingin sem fólk gat leyft sér um jólin. Þá var notast við lifandi kertaljós en fólk gat ekki leyft sér að kveikja á kertum nema til hátíðabrigða og gerði það þess vegna um jólin. Enn í dag er það ljósadýrðin sem er mest áberandi þegar líða fer að jólum en nú eru það ekki aðeins kertaljós sem gefa okkur aukna birtu í skammdeginu heldur einnig ýmis konar rafmagnsljós af öllum stærðum og gerðum. 

Áður en rafmagnið kom til sögunnar þurftu Íslendingar að lifa við meira myrkur en nútímamaðurinn getur með góðu móti gert sér í hugarlund. Lýsi, ýmist selslýsi, hákarlalýsi eða þorskalýsi, var algengasta ljósmeti sem almenningur notaði og fara þurfti sparlega með það. Í gamla sveitasamfélaginu þar sem helsti íverustaður fólks var baðstofan var oft ekki nema einn lýsislampi sem gaf auðvitað aðeins takmarkaða birtu og ekki var kveikt á honum fyrr en myrkur var skollið á því ekki mátti eyða ljósmetinu þó komið væri örlítið rökkur. 

Á þessum tíma voru kerti yfirleitt búin til úr sauðatólg sem var fremur dýr og voru þau þess vegna ekki notuð hversdagslega á alþýðuheimilum. Á aðfangadagskvöld var hins vegar hefð fyrir því að allir á heimilinu fengju sitt eigið tólgarkerti. Það hefur sjálfsagt verið hátíðleg stund þegar kveikt var á kertum allra heimilismanna í baðstofunni á aðfangadagskvöld þar sem birtan varð þá skyndilega miklu skærari en fólk átti að venjast dags daglega. Enn í dag þykir það mikilvægt að sett séu upp fleiri ljós, bæði kertaljós og rafmagnsljós, í kringum jólahátíðina þrátt fyrir að ekki sé lengur nokkur hörgull á almennilegri lýsingu í hversdagslífi okkar. Þegar jólin nálgast er varla það hús að finna hér á landi þar sem ekki hefur verið sett aukaljós í glugga og hlýtur það að benda til þess að þrátt fyrir aukin lífsgæði má alltaf hleypa meiri birtu inn í lífið þegar skammdegið er sem svartast. 

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.