Jólasiðir

Jól á Íslandi

Á Íslandi hefjast jólin kl. 18.00 á aðfangadag, þann 24. desember og stendur hátíðin fram að þrettánda, þann 6. janúar. Á norðurslóð eiga þau sér ævaforna sögu tengda vetrarsólhvörfum en ekki er vitað nákvæmlega hvenær jól voru haldin í heiðnum sið en sennilegt þykir að það hafi verið gert með fullu tungli í skammdeginu. Ekki vita menn heldur hvernig heiðin jól voru haldin, nema að þau voru „drukkin“ með matar- og ölveislum og buðu íslenskir höfðingjar oft fjölmenni til jóladrykkju.

Síðar féllu norræn jól saman við hina kristnu fæðingarhátíð frelsarans en um það leyti sem kristni barst til Íslands var hátíðin löngu komin í fastar skorður innan Rómarkirkjunnar. Vert er að geta þess að suður við Miðjarðarhaf hafði það sama gerst nokkuð fyrr en þar runnu heiðnar hátíðir einnig saman við kristnar. Þannig urðu aldagamlar skammdegishátíðir að hátíð frelsarans, þar sem ýmist fæðingu hans eða skírn var fagnað. Á 4. og 5. öld komst sú venja víðast á í hinum kristna heimi að minnast fæðingar frelsarans þann 25. desember en skírnarinnar og tilbeiðslu vitringanna þann 6. janúar, en til þessa má rekja hugmyndina um jóladagana þrettán.
Þótt jólahátíðin sjálf sé ekki nema þrettán dagar og hefjist stundvíslega klukkan 18.00 á aðfangadagskvöld má segja að undirbúningurinn fyrir jólin sé jafnmikilvægur mörgum og hátíðin sjálf. Svona hefur þetta verið um aldir en vikurnar á undan jólunum hafa löngum verið undirlagðar undir jólaundirbúning. Á Íslandi hafa þessar vikur fyrir jólahátíðina ýmist verið kallaðar jólafasta eða aðventa. Jólafasta vegna þess að í kaþólskum sið var fastað vikurnar fyrir jól og þá áttu menn að hvíla sig á öllu kjötáti. Orðið aðventa kemur hins vegar beint úr latínu þar sem orðið adventus merkir tilkoma en aðventan er hugsuð sem bæði andlegur og veraldlegur undirbúningstími fyrir fæðingarhátíð frelsarans. Aðventan, sem hefst fjórða sunnudag fyrir jól, er því sá tími sem notaður er til þess að gera allt tilbúið fyrir jólin. Reyndar er það orðið þannig í dag að margir byrja að undirbúa hátíðina löngu áður en aðventan hefst en á aðventunni er þó alltaf lögð lokahönd á undirbúninginn.

Í gamla sveitasamfélaginu var mikið kapp lagt á að ljúka við þau verk sem vinna þurfti á heimilinu fyrir jólin og fór þar mest fyrir tóvinnunni. Fyrir prjónles var hægt að fá úttekt hjá kaupmanninum og ef vörurnar áttu að fást fyrir jólin þurftu ullarvörurnar að sjálfsögðu að vera tilbúnar í tæka tíð. Þá þótti mikilvægt að heimilismenn væru sæmilegir til fara þegar jólahátíðin loks gekk í garð og ekki mátti neinn fara í jólaköttinn. Þeir sem voru duglegir við vinnuna fengu nýja spjör að launum frá húsbændum sínum og var því eins gott að halda vel á prjónunum.
Í dag hefur jólaundirbúningur landsmanna breyst nokkuð frá því sem áður var en síst fer hann minnkandi. Nú er margt sem nauðsynlegt þykir að klára áður en kirkjuklukkurnar hringja inn jólin. Það þarf að skrifa jólakort, kaupa jólagjafir, gera jólahreingerningu þar sem húsið er þrifið hátt og lágt, kaupa ný jólaföt á fjölskyldumeðlimina og þrettán dögum fyrir jól setja börnin skóinn sinn út í glugga í von um smáræði frá jólasveinunum. Þá þarf að kaupa jólatré, huga að jólamatnum, jólabakstrinum og jólaskreytingunum. Þegar hátíðin er loks gengin í garð og undirbúningi er lokið taka við hjá mörgum sæluríkir dagar hlaðnir jólaboðum og jólaskemmtunum.

Heimildir:

Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.