Jólasiðir

Jólaskraut

Þegar jólahátíðin nálgast má sjá alls kyns jólaskraut og jólaljós hvert sem litið er. Fólk skreytir heimahús sín og setur marglitar ljósaseríur í glugga. Búðagluggar fyllast af jólavarningi og ríkulegum skreytingum og mikil ljósadýrð prýðir bæi og borg. Mest fer auðvitað fyrir jólaljósunum enda eru jólin haldin hátíðleg í svartasta skammdeginu hér á landi og getur það verið mikill léttir fyrir sálartetur landsmanna að fá aukaljós í lífið.

Í nánast hverjum glugga, bæði í heimahúsum og á vinnustöðum, má sjá marglitar jólaseríur og aðventuljós. Flestir setja einnig upp aðventukransa með fjórum kertum sem kveikt er á, einu í senn, síðustu fjóra sunnudagana fyrir jól. Síðan má ekki gleyma jólatrjánum sem flestir kjósa að setja upp á heimilum sínum þegar jólin nálgast. Sumir setja upp lifandi grenitré á meðan aðrir láta sér nægja margnota gervitré en öll eiga þau það sameiginlegt að vera ríkulega skreytt með bæði ljósum og skrauti. Það er þó ekki aðeins á heimilum fólks sem sett eru upp jólatré heldur eru flestir vinnustaðir og skólar með skreytt jólatré svo ekki sé minnst á öll jólatrén sem finna má utandyra út um borg og bý. Það getur verið svolítið undarlegt til þess að hugsa fyrir nútímamanninn sem ekki þekkir jólin öðruvísi en með allri ljósadýrðinni og skreytingunum sem þeim fylgir að það er ekki svo ýkja langt síðan fór að bera á jólaskreytingum á Íslandi. Það var ekki fyrr en í lok 19. aldar að jólaskraut varð algengt hér á landi og hefur það farið stigvaxandi með hverju árinu sem líður.

Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.