Jólasiðir

Laufabrauð

Í hugum margra er laufabrauðið eitt af séreinkennum íslensks jólahalds. Elsta heimild sem til er um laufabrauð á Íslandi er frá fyrri hluta 18. aldar þar sem laufabrauðinu er lýst sem sælgæti Íslendinga. 

Talið er að upprunalega hafi laufabrauðið aðallega verið á borðum þeirra sem meira máttu sín en hafi ekki komið á hátíðarborð almennings fyrr en á 19. öld. Erfitt gat verið að fá hráefni í brauðið, sérstaklega á tímum einokunarverslunarinnar, og var því brauð og annað kornmeti aðeins á borðum almennings til hátíðabrigða. Brugðið var á það ráð að baka örþunnt brauð fyrir jólin svo allir gætu fengið að smakka eins og segir í kvæðinu:

Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum,
kertaljós og klæðin rauð svo komist þau úr bólunum.

En hér mun líklega hafa verið átt við laufabrauðið. Til þess að auka við hátíðleikann við brauðátið voru skornar fallegar myndir út í laufabrauðið. Í lok 19. aldar var það þó aðallega á Norðurlandi sem laufabrauð var hátíðabrauð almennings og var það ekki fyrr en síðar að það breiddist um landið. Þar var einnig sá siður að fólk kom saman og skar út laufabrauð á aðventunni. 

Heimildir:
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.