Jólasveinar og aðrir vættir

Jólakötturinn

Jólakötturinn er önnur óvættur sem lætur á sér kræla um jólin. Nú á dögum er hann stundum sagður eiga heima hjá þeim Grýlu og Leppalúða en hann virðist vera tiltölulega nýfluttur í hellinn þeirra.

 Um uppruna jólakattarins er margt á huldu annað en það að honum svipar að mörgu leyti til erlendra dýravætta sem birtast í nágrannalöndum okkar á aðventunni. Hinn norræni jólahafur er vafalaust sú erlenda dýravættur sem íslenski jólakötturinn okkar líkist mest en þeir eiga það báðir sameiginlegt að fylgjast vel með fólki í undirbúningi jólanna og gera þeim sem ekki fá nýja flík á jólunum illt. Þekkt er að á Norðurlöndum hafi menn klætt sig upp sem jólahafur í jólaleikjum og hafa sumir velt því fyrir sér hvort það sama hafa verið uppi á teningnum hér á landi og fólk hafi klætt sig upp í jólakattarbúning. Um það eru þó ekki til neinar heimildir og því ekki hægt að fullyrða neitt um það en þar sem lengi hefur þekkst að tala um „að fara jólaköttinn“ eða „að klæða köttinn/jólaköttinn“ má vel vera að það hafi einhvern tímann verið gert í bókstaflegum skilningi. Sú túlkun sem nú er oftast lögð í orðalagið „að fara í jólaköttinn“ og hefur lengi verið við lýði er sú að jólakötturinn éti þá sem ekki fá ný föt á jólunum. Reyndar hefur líka komið fram mildari skýring á orðalaginu en hún er sú að jólakötturinn éti matinn frá þeim sem ekki fá nýja spjör um jólin. Jóhannes úr Kötlum gerir mannætuháttalag jólakattarins að yrkisefni í kvæði sínu um óhræsið þar sem segir:

Jólakötturinn

Þið kannizt við jólaköttinn,
– sá köttur var gríðarstór.
Fólk vissi ekki hvaðan hann kom
eða hvert hann fór.

Hann glennti upp glyrnurnar sínar,
glóandi báðar tvær.
– Það var ekki heiglum hent
að horfa í þær.

Kamparnir beittir sem broddar,
upp úr bakinu kryppa há,
– og klærnar á loðinni löpp
var ljótt að sjá.

Hann veifaði stélinu sterka,
hann stökk og hann klóraði og blés,
– og var ýmist uppi í dal
eða úti um nes.

Hann sveimaði, soltinn og grimmur,
í sárköldum jólasnæ,
og vakti í hjörtunum hroll
á hverjum bæ.

Ef mjálmað var aumlega úti
var ólukkan samstundis vís
Allir vissu´, að hann veiddi menn
en vildi ekki mýs.

Hann lagðist á fátæka fólkið,
sem fékk enga nýja spjör
fyrir jólin – og baslaði og bjó
við bágust kjör.

Frá því tók hann ætíð í einu
allan þess jólamat,
og át það svo oftast nær sjálft,
ef hann gat.

Þvi var það, að konurnar kepptust
við kamba og vefstól og rokk,
og prjónuðu litfagran lepp
eða lítinn sokk.

Því kötturinn mátti ekki koma
og krækja í börnin smá.
– Þau urðu að fá sína flík
þeim fullorðnu hjá.

Og er kveikt var á jólakvöldið
og kötturinn gægðist inn,
stóðu börnin bíspert og rjóð,
með böggulinn sinn.

Sum höfðu fengið svuntu
og sum höfðu fengið skó,
eða eitthvað, sem þótti þarft,
– en það var nóg.

Því kisa mátti engan eta,
sem einhverja flíkina hlaut. –
Hún hvæsti þá heldur ljót
og hljóp á braut.

Hvort enn er hún til veit ég ekki,
– en aum yrði hennar för,
ef allir eignuðust næst
einhverja spjör.

Þið hafið nú kannske í huga
að hjálpa, ef þörf verður á.
– Máske enn finnist einhver börn
sem ekkert fá.

Máske, að leitin að þeim sem líða
af ljós-skorti heims um ból,
gefi ykkur góðan dag
og gleðileg jól.

Hér er það nokkuð ljóst að Jóhannes úr Kötlum hefur túlkað það sem svo að þeir sem færu í jólaköttinn færu beint í gin hans og hefur þessi túlkun verið lífseig æ síðan og er enn talað um að þeir sem fá ekki nýjar spjarir á jólunum „fari í jólaköttinn“. Enn þann dag í dag þykir mörgum mikilvægt að fá ný föt fyrir jólin og algengt er að menn séu í nýjum fötum frá toppi til táar, yst sem innst á aðfangadagskvöld. Það er áhugavert að sjá hvernig hann lýsir því hvernig konurnar á bænum keppast við að klára hverja flíkina á fætur annarri til þess að forða heimilisfólkinu frá klóm kattarins. 5.-des---jolakotturinnJólakötturinn var því að öllum líkindum óvættur sem átti að hvetja til þess að heimilisfólk héldi vel á spöðunum fyrir jól og kláraði verk sín en að launum fékk fólk nýja spjör í jólagjöf frá húsbændum sínum. Þeir sem ekki luku verkum sínum í tæka tíð fengu hins vegar enga gjöf frá húsbóndanum og lentu þar með í jólakettinum. Þannig spornaði jólakötturinn gegn leti og slóðaskap. Þó er hægt að túlka þetta eins og Jóhannes gerir í kvæði sínu á þann veg að það sé auðvitað mikið óréttlæti fólgið í því að þeir sem að einhverjum ástæðum fá ekki neinar nýjar flíkur, kannski vegna bágra kjara, skuli eiga það á hættu að vera étin lifandi af hrikalegum jólaketti. Hann hvetur því þá sem meira eiga að aðstoða þá sem ekkert fá svo allir geti notið jólanna óhræddir við hvers kyns óvættir og enn í dag eru jólin sá tími öðrum fremur þar sem þeir sem eru aflögufærir gefa þeim sem minna mega sín einhverja gjöf.

Heimildir: 
Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
Árni Björnsson. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður 2006.
Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir. Hver er uppruni jólakattarins? Vísindavefurinn, 2005.
Jóhannes úr Kötlum. Jólin koma. Kvæði handa börnum. Mál og menning, Reykjavík 1932.