Handbækur

Leiðbeiningar um umhirðu forngripa og frágang sýna

  • Útgáfa - 2013

Fornleifafræðingar eru ábyrgir fyrir forngripum í sinni vörslu og þurfa þess vegna að gera ráð fyrir viðunandi úrræðum og fjármagni til að tryggja faglegar aðstæður áður en uppgröftur hefst, sérstaklega þar sem gert er ráð fyrir töluverðum fjölda forngripa, sem þurfa sérhæfða forvörslu.

Þarna er átt við t.d. efni til pökkunar á vettvangi og aðgengi að forngripaforverði til ráðgjafar eða starfa. Þegar sérstaklega viðkvæmir eða mikilvægir gripir finnast, eða gripir úr samsettum efnum, skal leita ráðgjafar hjá forngripaforverði Þjóðminjasafns Íslands.

Fyrirbyggjandi forvarsla á vettvangi hjálpar til við að tryggja langtímavarðveislu forngripa og að varðveita upplýsingar um framleiðslu þeirra og notkun. Sú skyndilega breyting sem á sér stað í umhverfi gripsins við fornleifauppgröft getur valdið hraðri hrörnun grips, ef hann er ekki geymdur við viðunandi skilyrði. Einfaldar aðferðir sem nota má á vettvangi og við geymslu forngripa lágmarka áhrif þessarar skyndilegu breytingar. Alvarlegar skemmdir, sem ekki er hægt að leiðrétta með meðhöndlun í forvörslu, verða ef umhirðu gripa meðan á uppgreftri stendur og eftir hann er ábótavant.
Forvarsla ætti að vera fastur liður í skipulagningu verkefna, þar sem gert er ráð fyrir efnum og meðhöndlun forngripa í forvörslu í fjárhagsáætlun. Viðbragðsáætlun ætti einnig að vera til staðar fyrir óvænta fundi.

Leiðbeiningar um umhirðu forngripa og frágang sýna (874 KB, pdf)