Myndasöfn - Björn Björnsson (1889-1977)

Sérstaða Björns í íslenskri ljósmyndun var að hann varð fyrstur íslenskra ljósmyndara til að sérhæfa sig í ljósmyndun fugla. Björn var verslunarmaður á Seyðisfirði þegar hann kynntist ljósmyndun um 1911. Seyðisfjörður var þá í örum vexti og ljósmyndun að verða til sem tómstundagaman hjá ungu fólki á staðnum. Björn fluttist til Norðfjarðar árið 1914, með viðkomu á Djúpavogi og hóf eigin verslunarrekstur árið 1919. Samhliða verslunarrekstrinum stundaði Björn áhugamálið í heimabyggð sinni sem var utan vegasambands. Þegar frá leið nýtti Björn frí sín til að fara í myndatökuferðir í önnur héruð. Ferðamátinn var einfaldur og hagkvæmur, eigin jeppi, tjald og nesti. Það sem dró Björn áfram og leiddi hann á tiltekna staði voru fuglar. Auðvitað myndaði hann ýmislegt í umhverfinu á ferðum sínum um landið en stefnumótið átti hann við fugla. Þegar hann kom á nýjar slóðir spurðist hann fyrir um varpstaði einstakra fulgategunda og hvar fuglar héldu til. Síðan dvaldi hann langdvölum á sama stað þar til tilteknum myndum var náð. Á Neskaupsstað myndaði hann fólk, mannlíf, hús og atvinnulíf. Myndirnar stækkaði hann og rammaði inn og seldi í búð sinn. Þannig gátu heimamenn haft sitt umhverfi sem stofuprýði en ekki síður gátu brottfluttir haft átthagana fyrir augunum í myndum á vegg. Kominn yfir miðjan aldur eða 56 ára flutti Björn til Reykjavíkur, hætti verslunarrekstri og helgaði sig köllun sinni. Hann var snemma handgenginn Finni Guðmundssyni fuglafræðingi og þeir áttu samfélag um um sitt áhugamál. Fuglamyndir Björns birtust víða innanlands og utan og náði hann því að eiga forsíðumynd á vikublaðinu Time. Erfingjar Björns afhentu Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni filmusafn hans árið 2014 og það hefur að geyma um 33.500 filmur.