Myndasöfn - Gunnar Pétursson (1928-2012)

Huldumaður íslenskrar ljósmyndunar er lýsing sem á vel við Gunnar Pétursson áhugaljósmynda því hann átti langan feril án þess að ljósmyndir hans væru íslensku þjóðinni virkilega kunnar. Hann tók snemma á ævinni ástfóstri við ljósmyndun, var virkur áhugamaður alla ævi en sótti sér aldrei formlega menntun í faginu. Hann stóð framlega tæknilega séð og tileinkaði sér nýjar stefnur í ljósmyndun. Gunnar vann lengst sem skrifari í pakkhúsi skipafélagsins Eimskips og hafnarsvæði Reykjavíkur var honum hugleikið sem myndefni. Rúmlega tvítugur gekk hann í Ferðafélag Íslands og þó að borgin væri áberandi í verkum hans framan af þá varð náttúran mun fyrirferðameiri í ljósmyndum hans þegar leið á ævina. Í ferðalögum sameinaði hann tvær ástríður í lífi sínu útivist og ljósmyndun. Gunnar var virkur í bylgju áhugaljósmyndara um 1950 þegar fagurfræðileg nálgun í ljósmyndun komst á dagskrá hérlendis. Hann var stofnfélagi í Félagi áhugaljósmyndara og Litla ljósmyndaklúbbnum sem voru báðir stofnaðir árið 1953. Þá tók hann þátt í nokkrum ljósmyndasýningum á Íslandi og fékk myndir sínar birtar á sýningum utanlands. Þrátt fyrir að fá lof dró hann sig snemma í hlé frá sýningarhaldi og fór leynt með ljósmyndun sína stærstan hluta ævinnar. Áköf tilraunmennska og abstrakt nálgun með ljóðrænu ívafi einkenndi ljósmyndir hans. Hann fór aldrei erlendis en skóp myndheim sem bar sterk erlend áhrif. Gunnar er í hópi fremstu fagurfræðilegra ljósmyndara okkar frá þessum tímabili. Erfingjar Gunnars afhentu Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni filmusafn hans til varðveislu og telur það um 54.000 negatívur í svart hvítu og lit og yfir 800 frumkópíur gerðar af Gunnari sjálfum.