Myndasöfn - Hjálmar R. Bárðarson (1918-2009)

Hjálmar R. Bárðarson var einn þeirra áhugaljósmyndara sem komu fram á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann hafði mikil áhrif á áhugaljósmyndun á Íslandi með mótun félagsstarfs hreyfingarinnar og var frumkvöðull í útgáfu landkynningarbóka með eigin myndum. Hjálmar eignaðist ljósmyndavél á Ísafirði um fermingu og ljósmyndun varð hans lífsástríða. Fyrsti lærimeistari hans, Haraldur Ólafsson áhugaljósmyndari, hjálpaði honum fyrstu skrefin í myndvinnslu á tímum þegar áhugaljósmyndararar framkölluðu sjálfir filmur og unnu sínar myndir í myrkraherbergjum. Dvöl við verkfræðinám í Kaupmannahöfn leiddi Hjálmar inn í mótað áhugamannastarf í ljósmyndaklúbbum. Hann varð virkur félagi í Amager fotoklub og sýndi innan vébanda klúbbsins en myndir hans fóru einnig á vegum klúbbsins til annarra ljósmyndaklúbba innan og utan Danmerkur. Á Danmerkurárunum fékk Hjálmar líka birtar myndir í dönskum blöðum aðallega í vikublaðinu Mandens Blad. Þegar Hjálmar sneri aftur heim til Íslands að loknu námi stofnaði hann Hið íslenska ljósmyndafélag og var það meðlimur í FIAP alþjóðasamtökum áhugaljósmyndara. Markmið félagsins var að viðurkennt yrði hið listræna viðhorf fólks til ljósmynda. Mikil gróska var í áhugaljósmyndun eftirstríðsáranna jafnt á Íslandi sem annars staðar. Hjálmar veitti mikinn innblástur í það starf. Hann safnaði saman myndum frá áhugamönnum og sendi, ásamt eigin myndum, til erlendra félaga og sýningarstaða til sýningarhalds. Samhliða skrifaði hann greinar um áhugaljósmyndun á Íslandi í íslensk og norræn blöð. Ljósmyndabók Hjálmar Ísland farsælda Frón sem kom út árið 1953 var fyrsta heildstæða höfundarverk íslensks ljósmyndara á bók. Þegar frá leið varð útgáfa ljósmyndabóka vettvangur Hjálmars. Hann gaf út tólf ljósmyndabækur um Ísland og náttúru þess og flestar á nokkrum tungumálum. Þar var viðfangið Ísland, saga þess og náttúra bæði útfrá einstökum tegundum náttúrunnar og staðbundum sjónarhornum. Þjóðminjasafn Íslands var einn sex erfingja Hjálmars að honum látnum. Ljósmyndasafn Hjálmars með um 350.000 filmum og tæplega 600 glerplötum var hluti af afrinum.