Myndasöfn - Ljós- og prentmyndasafnið

Þegar Listasafn Íslands komst undir verndarvæng Þjóðminjasafnsins árið 1915 var myndum þess safnað saman og þær loksins skráðar. Safnkostinum var skipt upp í þrennt eftir gerð hans: Ljós- og prentmyndasafn, Málverkasafn og Höggmyndasafn. Í Ljós- og prentmyndasafnið voru skráðar grafíkmyndir og ljósmyndir sem Listasafninu höfðu borist frá því til þess var stofnað árið 1885 og fram til 1915. Mjög fljótt tók söfnun til Ljós- og prentmyndasafnsins aðra stefnu og hið listræna vék fyrir heimildagildi. Það réðist af því að sami starfsmaður var yfir báðum söfnunum Þjóðminjasafni og Listasafni en líka af því að kjarni aðfanganna hafði heimildagildi frekar en listgildi. Í Ljós- og prentmyndasafnið voru skráðar margvíslegar pappírsmyndir sem bárust safninu en slíkar gjafir komu fyrst og fremst frá einstaklingum. Eins og gefur að skilja eru það margvíslegar myndir bæði að gerð og myndefni. Þær sýna staði, hús og önnur mannvirki, atburði, híbýli, vinnustaði og fleira. Kjarni myndanna er frá Íslandi en einnig eru fáeinar myndir tengdar Íslendingum í Vesturheimi og veru Íslendinga í Danmörku. Uppistaðan í safninu eru ljósmyndir alveg frá árdaga ljósmyndunar og fram yfir síðustu aldamót. Það má segja að safnið sé þverskurður af ljósmyndasafni þjóðarinnar. Myndir í safninu eru frá tímabilinu 1859, en frummyndir eru til úr leiðangri Frakka til Íslands það ár, og allt til ársins 2000, en frá því ári eru stafrænar myndir úr Búsáhaldabyltingunni. Í safninu er líka nokkuð af gömlum vatnslita- og grafíkmyndum, sem erlendir listamenn gerðu einkum á 18. og 19. öld á ferðum sínum um Ísland. Þær myndir eru eðli málsins samkvæmt fágætar og lítið hefur bæst við af slíku efni á síðustu árum. Vegna þess hve fábreytt myndefni er til frá Íslandi fyrir 1900 hafa myndir erlendra manna mikið heimildagildi. Reynt hefur verið að halda við þessum þætti með kaupum á blöðum með erlendu myndefni til dæmis frá árum seinni heimstyrjaldarinnar. Ljós- og prentmyndasafnið er í stöðugum vexti. Í því eru nú skráðar um 37.000 myndir.