Myndasöfn - Loftur Guðmundsson (1892-1952)

Hinn fjölhæfi lífskúnstner Loftur Guðmundsson opnaði ljósmyndastofu árið 1925 og varð fljótt einn eftirsóttasti og afkastamesti portrett ljósmyndari landsins. Sama ár var hann að frumsýna sína aðra kvikmynd, Ísland í lifandi myndum, sem var fyrsta íslenska heimildamynd sinnar tegundar. Loftur byrjaði feril sinn sem áhugaljósmyndari og tók einungis þriggja mánaða langt nám hjá ljósmyndara í Kaupmannahöfn áður en hann hóf eigin rekstur. Hann hafði þá þegar að baki dágóða þekkingu og reynslu af kvikmyndun sem var mikil ástríða í lífi hans. Loftur var lengst af með stofu í húsi Nýja bíós við Lækjargötu í Reykjavík og var með fjölda manns í vinnu. Loftur var framkvæmdasamur, snöggur að taka upp nýungar og næmur fyrir þörfum almennings. Hann innleiddi myndagerðina, filmfoto eða 15-myndarammar tökur sem voru áþekkar polyfoto myndum sem Kaldal hafði einkaleyfi á. Þegar litmyndun fór að ryðja sér til rúms hélt Loftur til Bandaríkjanna til að kynnast þeirri nýung og færa sér hana í nyt. Ljósmyndir hans voru fjöldaframleiðsla af bestu gerð þar sem leikræn nálgun, rómantík og glamúr lokkuðu viðskiptavini. Á þriðja og fjórða áratugnum fékk hinn almenni borgari útlit kvikmyndastjörnu í meðförum Lofts. Þegar konum bauðst árið 1930 að taka þátt í fegurðarsamkeppni þar sem mynd af þeim fylgdi Teofani-sígarettupökkum leituðu þær flestar til Lofts. Loftur hafði einstaka viðskiptahæfileika og vakti eftirtekt fyrir mikla auglýsingagleði sem kom oft illa við keppinauta hans meðal stofuljósmyndara. Hann var óhræddur að koma verkum sínum á framfæri og vinsælar ljósmyndasýningar hans í verslunargluggum borgarinnar voru þar gott dæmi um. Hann snerti fjölmarga þætti ljósmyndunar tók m.a. auglýsingamyndir, landslandsmyndir og heimildamyndir. Loftur vann alla tíð við kvikmyndun samhliða ljósmyndum og má sjá að áhrif þess miðils smitast á milli. Myndasafn hans er mjög umfangsmikið og eitt það allra stærsta sem varðveitt er í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni eða 131.848 plötur það eru þó því miður fyrst og fremst mannamyndir. Öðrum hlutum myndasafns hans var fleygt.