Myndasöfn - Mannamyndasafnið

Upphafið af sérstakri söfnun mynda til Þjóðminjasafnsins var þegar sett var fót svonefnt Mannamyndasafn árið 1908. Það var liður í stefnu um að mynda minni heildir utanum tiltekinn hluta af safnkostinum. Þannig urðu til Myntsafn, Þjóðfræðasafn, Listiðnaðarsafn og fleiri. Fyrst voru endurskráðar þær mannamyndir sem áður voru í almenna munasafninu. Í Mannamyndasafninu er að finna ólíkar gerðir mannamynda m.a. málverk, teikningar, bústur/brjóstmyndir, steinþrykk og ljósmyndir sem urðu algjörlega yfirgnæfandi með tímanum. Breiddin í safnkostinum er mikil því þar má finna bæði listaverk og skyndimyndir, fágætar myndir sem og fjöldaframleiddar. Fyrstu mannamyndirnar voru eingöngu af þjóðþekktum einstaklingum enda lengi vel ekki á færi almúgans að eignast af sér mynd. Þetta átti eftir að breytast fljótt með tilkomu ljósmyndunar. Tilgangurinn með stofnun mannamyndasafns var metnaðarfullur eða að safna myndum af öllum Íslendingum. Þannig gæti safnið fært saman ásýnd heillar þjóðar; ómetanlegt safn sem myndi gera komandi kynslóðum kleift að draga fram mynd af forfeðrum sínum. Í upphafi var ráðist í virka söfnun með því að hvetja fólk til að senda safninu mynd af sér og öðrum. Mannmyndasafnið hefur í dag marþætt gildi, það er skjalasafn og skráning á einstaklingum, ytra útlit þess og klæðaburði. Safnið er einnig vitnisburður um hina miklu þróun sem hefur átt sér stað í afritun af útliti manna frá teikningum og málverki yfir í ljósmyndun. Þar er að finna ólíkar gerðir ljósmynda, eins og daguerreótýpur, tintýpur, ambrótýpur og pannótýpur svo eitthvað sé nefnt. Jafnvel umgjörð og framsetning mynda er ákveðin heimild. Safnið er öðrum þræði listaverkasafn og geymir margt fágæti t.d. verk eftir frumkvöðla í gerð mannamynda eins og Sigurð Guðmundsson málara, Arngrím Gíslason og Sæmund Hólm. Mannamyndasafn er sérsafn innan Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni og telur yfir 55.000 myndir af margvíslegri gerð.