Myndasöfn - Nicoline Weywadt (1848-1921)

Nicoline Weywadt lærði ljósmyndun fyrst kvenna á Íslandi. Hún sneri heim úr námsdvöl í Kaupmannahöfn haustið 1872 . Nicoline var dóttir verslunarstjórans við dönsku verslunina á Djúpavogi, Peter Weywadt og konu hans Sophie. Foreldrar hennar voru bæði dönsk. Eftir heimkomuna hóf Nicoline að stunda ljósmyndun og gerði það fram yfir aldamótin 1900 eða í tæp 30 ár. Hún hafði fyrst aðstöðu á Djúpavogi en seinna á Teigarhorni bæ í nágrenni Djúpavogs. Líkt og allir ljósmyndarar á þessu tímabili myndaði Nicoline fyrst og fremst fólk. Starfssvæði hennar var stórt. Fólkið sem hún myndaði var alveg frá Suðursveit í Austur-Skaftefellssýslu og norðan úr Vopnafirði þannig að segja má að hún hafi myndað fólk alls staðar að á Austurlandi. Fólk kom til Nicoline í myndatökur þegar ferð féll í kaupstað á Djúpavogi en hún fór líka í myndatökuferðir til annarra þéttbýlisstaða sem voru að myndast eins og Seyðisfjarðar og Eskifjarðar. Þannig varð hún í raun ljósmyndari alls Austurlands enda lengi vel ekki aðrir ljósmyndarar starfandi þar. Nicoline lét sér ekki nægja að mynda bara fólk því hún tók einnig myndir af bæjunum sem hún heimsótti. Yfirlitsmyndir af vaxandi byggðarkjörnum, einstökum hlutum þeirra eða stöku húsum. Þannig hafa myndir hennar verið helsta gátt okkar inní Austurland á seinni hluta 19. aldar. Mannamyndaplötur Nicoline voru keyptar til Þjóðminjasafns árið 1943, 752 talsins, og árið 1981 var keypt safn með glerplötum frá henni og uppeldis- og systurdóttur hennar Hansínu Björnsdóttur ljósmyndara. Þar reyndust vera 522 glerplötur með mannamyndum auk um 40 platna með útimyndum. Jafnframt er varðveitt nokkuð magn frummynda frá Nicoline í safninu.