Myndasöfn - Ólafur Magnússon (1889-1954)

Ólafur Magnússon var helsti landslagsljósmyndari Íslendinga af sinni kynslóð. Margar mynda hans eru kunnar fjölda Íslendinga eins og ljósmynd af fjárrekstri í Þjórsárdal sem prýddi peningaseðil. Mikil nýliðun var í stétt ljósmyndara í Reykjavík á öðrum og þriðja áratug 20. Aldar og var Ólafur einn þeirra sem opnaði ljósmyndastofu í upphafi þessa tímabils. Hann hafði alist upp við ljósmyndun þar sem faðir hans Magnús Ólafsson gerði ljósmyndun að aðalstarfi sínu um miðjan aldur. Ólafur opnaði ljósmyndastofu í Templarasundi árið 1913. Hann varð fljótt vinsæll portrett ljósmyndari. Umsvifin leiddu til þess að hann réði fljótlega aðstoðarfólk til starfa. Er frá leið urðu stækkaðar landslags ljósmyndir önnur megin framleiðsla stofunnar. Bættur húsakostur og efnahagur Íslendinga skapaði þörf fyrir myndir til híbýlaprýði á veggjum landsmanna. Um áratugi urðu handlitaðar ljósmyndir vinsæll valkostur til að skreyta heimili. Margir ljósmyndarar hlýddu kallinu og hófu framleiðslu slíkra mynda en segja má að Ólafur hafi verið lang afkastamestur. Ólafur hélt tvær ljósmyndasýningar í Kaupmannahöfn á myndum sínum árið 1928 og 1937. Um 1930 keypti Ólafur ljósmyndasjálfsala og opnaði sérstaka ljósmyndastofu fyrir hann í Bankastræti. Stofan var starfrækt um stuttan tíma en ljósmyndasjálfsalinn gekk í endurnýjun lífdaga á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Það var vegna aukins fjölda viðskiptavina meðal erlendra hermanna en líka vegna kröfu um að allir Íslendingar væru með skilríki eftir 1942. Mannamyndaplötur frá ljósmyndastofu Ólafs voru afhentar Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni að honum látnum og einnig hluti af þjóðlífsmyndum frá þeim feðgum. Það eru um 47.000 plötur og eru mannamyndaplötur uppistaðan. Stór hluti af safni Ólafs fylgdi hins vegar safni föður hans til varðveislu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur.